Þjóðhagslegur sparnaður var um 29% af vergri landsframleiðslu árið 2016. Hann hefur ekki verið meiri í rúma hálfa öld, eða frá árinu 1965. Hins vegar eru teikn á lofti um að skuldsetning heimilanna muni aukast í ár. Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningadeildar Arion banka.
Þjóðhagslegur sparnaður, eða hlutfall innlendrar og erlendrar fjárfestingar af landsframleiðslu að viðbættum viðskiptajöfnuði, hefur vaxið nær stöðugt frá árinu 2010 og stendur nú í tæpum 30% af landsframleiðslu. Horfa þarf aftur til ársins 1965 til að fá sömu tölur, en á síðustu þrjátíu árum hefur hann mestmegnis verið á bilinu 10-20% af landsframleiðslu.
Ytri ástæður, það er að segja lítil verðbólga og viðskiptaafgangur við útlönd, hafa einnig verið hagkvæmar fyrir þjóðhagslegan sparnað. Lítil verðbólga, sem má meðal annars útskýra með lágu heimsmarkaðsverði á hrávörum, hefur stuðlað að lítilli hækkun verðtryggðra lána á Íslandi. Eins hefur viðskiptaafgangur síðustu ára við útlönd leitt til tekjuinnstreymis.
Framlag heimila til þjóðhagslegs sparnaðar er þó ekki mikið, en verðbréfaeign þeirra hefur aukist lítið undanfarin misseri. Þó hefur sparnaður þeirra aukist að einhverju leyti, en hann er aðallega tilkominn vegna minni skulda heimilanna, þar sem lán til þeirra hafa aukist lítið á síðustu árum.
Hins vegar má skynja breytingu á skuldsetningu heimila á síðustu mánuðum, en lán vegna íbúðakaupa jukust töluvert á síðustu mánuðum. Ef litið er á 12 mánaða þróun frá maí síðastliðnum eru vísbendingar þess efnis að skuldir heimilanna séu að byrja að aukast aftur, sérstaklega með auknum íbúðarlánum frá lífeyrissjóðum.