Karllæg menning og langlífar staðalímyndir eru meðal hindrana sem kvenkyns millistjórnendur íslenskra fyrirtækja standa frammi fyrir. Þetta er ein af niðurstöðum greinar Unnar Dóru Einarsdóttur, Erlu S. Kristjánsdóttur og Þóru H. Christiansen um upplifun kvenmillistjórnenda íslenskra fyrirtækja. Greinin kom út í nýjasta tölublaði Tímarits um viðskipti og efnahagsmál.
Greina má kynjahalla í íslensku viðskiptalífi, en hlutfall kvenna í efsta stjórnunarstigi fyrirtækja var einungis 21,9% árið 2015. Meðal millistjórnenda var hlutfall þeirra nokkru hærri, en í 30% fyrirtækja var jafnt kynjahlutfall meðal þeirra.
Samkvæmt greinarhöfundum sýna umræddar tölur að enn skorti töluvert á að kynjahlutföllum í efsta stjórnunarlagi fyrirtækja hérlendis verði jafnt, þrátt fyrir að Ísland komi mjög vel út í alþjóðlegum samanburði. Hér á landi sé kynjabilið minnst og landið ítrekað talið „það besta til að vera kona“.
Algengt viðhorf meðal íslenskra stjórnenda sé að kynjajafnrétti muni nást með eðlilegum hætti í stað inngripa sem flýta þróun mála. Viðhorfið ber heitið lagnakenningin (pipeline theory), en í henni er vægi kynjakvóta og annarra aðgerða er dregið í efa þar sem kynjahalli er aðeins tímabundið ástand og staða kvenna í atvinnulífinu muni styrkjast að sjálfu sér.
Hins vegar virðist þróunin í átt að jafnrétti ganga óeðlilega hægt, en kynjahalli eykst eftir því sem nær dregur toppnum.
Í greininni var tekið viðtal við 11 konur í millistjórnendastöðum og þeirra upplifun dregin saman. Konurnar upplifa efsta stjórnunarlagið sem lokaða karlaklíku, yfirstjórnendastörfin sem sniðin að þörfum og aðstæðum karlmanna og að þær geti ekki bætt á sig frekari ábyrgð.
Flókinn vefur óáþreifanlegra hindrana sé til staðar, meðal annars í formi karllægrar menningar og langlífra staðalímynda. Einnig finnst þeim vinnusemi og vandvirkni þeirra ekki vera metna að verðleikum og finnast þær ekki falla að staðalímynd yfirstjórnanda.
Í sameiningu draga þessir þættir úr sjálfstrausti kvennanna til að sækjast eftir hærri stöðum ásamt því að valda þeim álagi og um leið viðhalda raunverulegum vanda ójafnréttis kynjanna í æðstu stjórnendastöðum fyrirtækjanna.
Greinin birtist í nýjasta tölublaði Tímarits um viðskipti og efnahagsmál. Tímaritið er gefið út í samvinnu viðskipta- og hagfræðideilda Háskóla Íslands, en því er ætlað að vera vettvangur fyrir fræðilegar ritgerðir í viðskipta- og hagfræði.