Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur ákveðið að ekki verði af fyrirhugaðri sameiningu Fjölbrautaskólans við Ármúla og Tækniskólans að svo stöddu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Samkvæmt tilkynningunni verður gerð greining á einstökum skólum og mögulegum skólaklösum með tilliti til styrkleika og veikleika þeirra. Að þeirri vinnu lokinni mun ráðherra ákveða hvort ástæða sé til að ráðast í sameiningar skóla eða gera aðrar breytingar á starfsemi „ svo efla megi gæði náms, skilvirkni í starfsemi og þjónustu við nemendur.“
Kristján Þór segir nauðsynlegt að athuga þá kosti sem eru í stöðunni þegar nemendum á framhaldsskólastigi muni væntanlega fækka, en hann væntir þess að nemendum á höfuðborgarsvæðinu muni fækka um 600 á ári.