Gengi hlutabréfa í Högum hafði lækkað um 5,72% rétt fyrir kl. hálf 11 í morgun, en samstæðan sendi tilkynningu til Kauphallarinnar um júníuppgjör sitt í gær eftir lokun markaða. Í uppgjörinu kom fram að sala Haga í matvöruverslunum sínum hafi dregist saman um 9,4% milli júnímánaða 2016 og 2017.
Samkvæmt tilkynningunni hefur breytt samkeppnisumhverfi hafi haft áhrif á rekstur og markaðsstöðu Haga, en þessir þættir hafi komið í ljós í bráðabirgðauppgjöri fyrir júnímánuð.
Magnaukning sölu á fyrsta ársfjórðungi í matvöruverslunum samstæðunnar var 1,8% milli áranna 2016 og 2017 og fjöldi viðskiptavina jókst um 1,7%. Hins vegar, ef bornar eru saman sambærilegar tölur fyrir júnímánuð, þá minnkaði salan um 9,4% og viðskiptavinum fækkaði um 1,8% milli ára. Framlegðarhlutfallið lækkaði sömuleiðis um 0,4 prósentustig milli júnímánaða 2016 og 2017.
Einnig kemur fram að þótt samstæðan hafi lagt af starfsemi og verðhjöðnun hafi átt sér stað í matvöru á samanburðartímabilinu þá hafi aðrir stórir kostnaðarliðir hins vegar hækkað. Má þar nefna kjarasamninga og þenslu á vinnumarkaði, auk þess sem flestir leigusamningar félagsins eru bundnir vísitölu neysluverðs, sem hefur hækkað á tímabilinu.
Kjarninn hefur áður fjallað um versnandi gengi Haga, en hlutabréfaverð samstæðunnar hefur lækkað hratt frá opnun Costco. Rekstur Haga hefur einnig tekið nokkrum breytingum undanfarin misseri, en þeir keyptu Lyfju og Olís á síðasta rekstrarári. Búast má við harðnandi samkeppni fram undan, en gert er ráð fyrir því að sænski fatarisinn H&M opni í ágúst.