„Í júní innrituðu 62.234 Íslendingar sig í flug frá Keflavíkurflugvelli og allt frá því að talning hófst á ferðalögum landands til útlanda þá hefur fjöldinn aðeins einu sinni verið meiri. Það var í júní í fyrra þegar Íslendingar fjölmenntu á Evrópukeppnina í Frakklandi en þá fóru samt aðeins um 5 þúsund fleiri til útlanda en í síðasta mánuði.“
Frá þessu er greint á vefnum Túristi.is, sem fjallar um ferðaþjónustuna hér á landi.
Greinilegt er að margir Íslendingar eru að njóta sumarsins erlendis þessi misserin. Sterkt gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum hefur gert það hagstætt fyrir Íslendinga að ferðast erlendis.
Raunar hafa síðustu þrír mánuðir verið sérstaklega miklir ferðamánuðir hjá Íslendingum, og komast á lista yfir mestu ferðamánuði Íslendinga, á erlenda grundu, frá upphafi, af því er segir í frétt Túrista. „Á fyrri helmingi ársins flugu í heildina um 290 þúsund íslenskir farþegar út í heim frá Keflavíkurflugvelli og hafa þeir aldrei verið svo margir á þessu tímabili. Sterkt gengi krónunnar og mikið framboð á ferðum úr landi hefur þar vafalítið mikið að segja en eins og Túristi greindi frá í byrjun júní þá var hægt að bóka mjög ódýra flugmiða til meira en 30 evrópskra borga með stuttum fyrirvara. Tilboð á sólarlandaferðum líka verið fjölmörg en í sumar halda 24 flugfélög uppi áætlunarflugi til og frá landinu til hátt í 90 áfangastaða,“ segir í frétt Túrista.