Öldungadeildarþingmaðurinn John McCain úr repúblikanaflokknum í Bandaríkjunum telur allar líkur á því að heilbrigðisfrumvarp flokks hans verði ekki samþykkt. Reuters greinir frá.
Upphaflega hafði verið áætlað að frumvarpið yrði lagt fyrir þingið fyrir þjóðhátíðardaginn 4. júlí. Forystumönnum repúblikanaflokksins tókst hins vegar ekki að afla stuðnings við frumvarpið fyrir þann tíma. Þingmenn koma saman í Washington á ný í dag, mánudag.
„Mín skoðun er að það [frumvarpið] er örugglega bara dautt,“ sagði McCain í sjónvarpsviðtali á CBS-sjónvarpsstöðinni. „Ég gæti haft rangt fyrir mér. Ég hélt til dæmis að ég yrði forseti Bandaríkjanna. En ég óttast að þetta muni ekki hafast.“
Enginn demókrati á bandaríska þinginu mun greiða atkvæði með frumvarpinu í öldungadeild þingsins. Þingmenn repúblikanaflokksins hafa verið á ferð um ríki sín þar sem margir hafa fengið að heyra hörð viðbrögð við frumvarpinu.
Heilbrigðisfrumvarpinu er ætlað að koma í stað heilbrigðislagana sem samþykkt voru í tíð Baracks Obama og hafa verið kölluð Obamacare.
Nýja frumvarpið hefur verið gagnrýnt úr mörgum áttum enda þykir ljóst að það muni skerða réttindi almennings á heilbrigðisþjónustu verulega. Gagnrýnendur hafa sagt frumvarpið vera skattaafslátt fyrir ríkt fólk með því að afnema heilbrigðistryggingar fyrir fátækari Bandaríkjamenn og gera heilbrigðisþjónustu dýrari þá sem eldri eru og fyrir þá sem þurfa á henni að halda.