Ný útlán lífeyrissjóða á fyrstu fimm mánuðum ársins námu tæpum 53 milljörðum króna í 2.838 samningum, samanborið við rúman 31 milljarð í 1.987 samningum fyrstu fimm mánuði síðasta árs. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Nemur aukningin ríflega 70% milli samanburðartímabila. Í maí síðastliðnum lánuðu sjóðirnir 12,5 milljarða og er það næsthæsta upphæð sem runnið hefur frá sjóðunum í einum mánuði.
Lífeyrissjóðirnir hafa að undanförnu boðið betri vaxtakjörum á lánum heldur en bankar.
Met var slegið í mars síðastliðnum þegar þeir lánuðu ríflega 13,5 milljarða, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Samkvæmt nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands, frá 6. júlí síðastliðnum, þá námu eignir lífeyrissjóða 3.633 milljörðum króna í lok maí og höfðu því lækkað um 27 ma.kr. eða 0,7% frá síðasta mánuði. Þar af voru eignir samtryggingadeilda 3.281 milljarðar og séreignadeilda 352 milljarðar.
Í lok maí námu innlendar eignir lífeyrissjóða 2.872 milljarðar. Þar af voru innlán í innlendum innlánsstofnunum 120 milljarðar og innlend útlán og markaðsverðbréf námu 2.618 milljörðum króna.
Erlendar eignir lífeyrissjóða voru 761 milljarðar í lok maí en það er 27 milljarða lækkun frá apríl. Hlutfall erlendra eigna hefur því farið lækkani, og nemur nú 20,9 prósentum.