Ríkiskaup og RARIK ohf. brutu gegn lögum um opinber innkaup þegar gengið var til samninga við Advania í fyrra um að smíða kerfi sem heldur utan um orkureikninga.
Þetta er niðurstaða kærunefndar útboðsmála, sem RÚV greindi frá í gær, og hefur úrskurður þess efnis verið birtur.
Lögbrotin eru sögð hafa bitnað á öðru hugbúnaðarfyrirtæki sem bauð í verkið, Annata ehf. Er skaðabótaréttur þess félags viðurkenndur í úrskurðinum.
Einungis Advania og Annata buðu í verkið, að því er segir í úrskurði kærunefndarinnar, og boð Annata var lægra.
Í úrskurðinum segir: „Því er áður lýst að kærandi átti lægsta verðtilboð sem barst í hinum kærðu samningskaupum og þátttakendur voru einungis tveir. Verður því að leggja til grundvallar að kærandi hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valinn til samningsgerðar og brot varnaraðila hafi skert möguleika hans í því sambandi. Telur nefndin af þessum ástæðum rétt að láta uppi álit á skaðabótaskyldu varnaraðila, svo sem nánar greinir í úrskurðarorði. Eftir atvikum málsins þykir rétt að varnaraðilar greiði kæranda sameiginlega málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur.“