39 prósent fleiri ferðamenn sóttu Ísland heim á fyrri hluta þessa árs 2017 en höfðu sótt landið heim á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu Ferðamálastofu sem birt var fyrir helgi.
Ferðamálastofa framkvæmir talningu á fjölda ferðmanna sem heimsækja Ísland og skiptir þeim tölum eftir mánuðum. Talningin fer fram við brottför í Leifsstöð og er hugsuð sem viðbótarupplýsingar við farþegatölur Isavia til að geta greint fjölda ferðamanna eftir þjóðernum. Nánari upplýsingar um talningaraðferðina má finna hér.
Undanfarin 15 ár hafa fleiri ferðamenn heimsótt Ísland á seinni helmingi ársins, þe. í júlí og fram að áramótum. Árin 2002 til 2016 voru að jafnaði 38,7 prósent heimsókna til landsins á fyrstu sex mánuðum ársins. 61,3 prósent heimsóttu landið á seinni sex mánuðum ársins að jafnaði.
Meðaltal hlutfallslegrar skiptingu ferðamanna á fyrri og seinni helmingi ársins
Þessi talning er ekki fölskvalaus og tölurnar hafa verið gagnrýndar fyrir að sýna ekki svart á hvítu hversu margir raunverulega dvelja á Íslandi. Þeir sem fara um flugstöðina í Keflavík eru taldir með, hvort sem þeir séu aðeins að millilenda hér á landi eða í heimsókn.
Kristján Daníelsson, forstjóri Kynnisferða, er einn þeirra sem hefur gagnrýnt talninguna.
Vöxturinn gríðarlegur milli ára
Eins og mikið hefur verið fjallað um á undanförnum misserum hefur fjölgun ferðamanna á Íslandi verið gríðarleg undanfarin ár. Á milli áranna 2015 og 2016 jókst fjöldi ferðamanna um 40 prósent, samkvæmt tölum Ferðamálastofu. Á milli áranna 2014 og 2015 hafði aukningin numið 30,21 prósenti.
Mæla má aukna aukningu á milli ára síðan árið 2010, þegar fjöldi ferðamanna minnkaði á milli ára, í kjölfar efnahagshrunsins hér á landi. Árin 2009 og 2010 fækkaði ferðamönnum sem hingað komu um á rúmlega 1 prósent. Strax árið 2011 varð mikil aukning, sem nam 17,8 prósent frá árinu áður.
Fjöldi ferðamanna fyrstu sex mánuði ársins 2017 miðað við 2016
Það sem af er ári er útlit fyrir að fjöldi ferðamanna muni enn aukast milli ára. Alls heimsóttu tæplega 1,8 milljónir ferðamanna Ísland á síðasta ári.
Ef hlutfallslegur fjöldi ferðamanna á fyrri og seinni helmingi ársins 2016 verður sá sami í ár má gera ráð fyrir að 2,5 milljónir ferðamanna heimsæki landið í ár. Miðað við það, þá eykst fjöldi ferðamanna enn um 42 prósent á milli áranna 2016 og 2017.
Það verður í fyrsta sinn sem það hægist á aukningu í fjölda ferðamanna síðan 2010.
Aukning ferðamanna á milli ára síðan 2003 og áætlun fyrir árið 2017
Fjöldi erlendra gesta sem fara um Leifsstöð 2002-2017
Ameríkönum fjölgar mest
Af þeim markaðssvæðum sem greind eru í tölum Ferðamálastofu þá koma hingað fleiri frá Norður-Ameríku en af öðrum markaðssvæðum.
Samsetning ferðamanna á fyrri helmingi áranna 2013-2017 hefur þess vegna breyst töluvert. Árið 2013 var fimmtungur ferðamanna sem hingað komu á fyrri helmingi ársins frá Norðurlöndum, um það bil fimmtungur kom frá Bretlandi, fimmtungur frá Mið- og Suður-Evrópu, fimmtungur frá Norður-Ameríku og restin annars staðar frá.
Síðan þá hefur komum Ameríkana fjölgað mest og munstrið allt annað í dag en fyrir fimm árum.