Arion banki spáir því að vísitala neysluverðs lækki um 0,3% milli mánaða í júlí. Þetta kemur fram í nýjum markaðspunkti greiningardeildar bankans í dag.
Verðlækkunin er að mestu leyti vegna lægra verðs á fötum og skóm, en sumarútsölur eru í gangi í mörgum fataverslunum nú líkt og síðustu ár. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 1,6%. Enn fremur spáir greiningardeildin áframhaldandi verðlækkun á eldsneyti, mat og drykk ásamt tómstundum og menningu, en að lækkun verði töluvert minni en í síðasta mánuði.
Fasteignaliður vísitölunnar er sem áður drifkraftur verðbólgu, en einnig er talið að flugfargjöld til útlanda muni hækka töluvert í mánuðinum. Talið er að hægja muni á hækkunum á húsnæðisverði næstu mánuðina, en greiningardeildin telur að framboð íbúða sé að aukast þar sem húsnæðisauglýsingum hefur byrjað að fjölga aftur.