Fleiri eru andvígir inngöngu Íslands í Evrópusambandið en hlynntir því, ef marka má nýlega könnun MMR. 47,9 prósent svarenda sögðust vera andvígir aðild að ESB en 29,0 prósent svarenda könnunarinnar sögðust hlynnt inngöngu.
Flestir þátttakendur í könnuninni sögðust vera „mjög andvíg(ur)“ aðild að ESB, eða 31,7 prósent. Næst flestir sögðust hvorki vera hlynnt eða andvíg aðild.
MMR greinir frá niðurstöðum könnunarinnar á vefnum MMR.is. Þar segir að litlar breytingar hafi orðið á afstöðu almennings gagnvart inngöngu Íslands í ESB á undanförnum þremur árum. Þær breytingar hafa hins vegar orðið að þeir sem segjast vera andvígir eru færri en á seinni hluta ársins 2012, þegar andstaða við aðild Íslands að sambandinu var sem mest. Andvígum hefur fækkað um rúmlega 10 prósentustig á tímabilinu 2012-2017. Á sama tíma hefur þeim sem hlynntir eru inngöngu fjölgað um 5 til 10 prósentustig.
Stjórnmálaflokkarnir pólaðir
Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins skera sig út ef litið er til afstöðu til aðildar miðað við stuðning við stjórnmálaflokka. Þeir sem eru hlynntir aðild að ESB eru í meirihluta innan allra stjórnmálaflokka nema í þessum tveimur flokkum. Þar eru lang flestir andvígir.
Kjósendur Samfylkingarinnar eru hlynntastir aðild að ESB. 77,3 prósent þeirra sem styðja Samfylkinguna vilja ganga í ESB. Stuðningsmenn Viðreisnar eru næstir; 57,0 prósent stuðningsmannanna vilja aðild að ESB.
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins eru hins vegar alveg hinu megin og vilja lang flestir stuðningsmanna þeirra flokka ekki ganga í ESB. 89,2 prósent framsóknarmanna segjast vera andvígir og 78,1 prósent sjálfstæðismanna.
Þá eru þau sem styðja ekki ríkisstjórnina líklegri til þess að vera hlynnt aðild að ESB en þau sem styðja hana.
Könnunin var gerð á dögunum 15. til 21. júní síðastliðinn og svöruðu 1.017 einstaklingar af spurningavagni MMR. Úrtakið var valið handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.