Kauphöllin tilkynnti í dag að frá og með deginum í dag muni hún í samstarfi við Nasdaq verðbréfamiðstöð birta opinberar upplýsingar um heildarveðsetningu íslenska hlutabréfamarkaðarins. Upplýsingar verða birtar mánaðarlega með markaðstilkynningu.
Í tilkynningunni segir að upplýsingar um veðsetningu geti veitt ákveðnar vísbendingar um umfang skuldsetningar á hlutabréfamarkaði, eða hversu mikið fjárfestar hafa fengið að láni til að kaupa í skráðum félögum. Hækkandi skuldsetning upp að vissu marki gæti verið jákvæður fyrirboði þar sem hún geti táknað aukna bjartsýni á meðal fjárfesta. Hins vegar geti of mikil skuldsetning verið litin neikvæðum augum, meðal annars vegna gruns um bólumyndun á markaði. Einnig geti mikil skuldsetning ýtt undir áhrif neikvæðra atburða á hlutabréfaverð.
„Með birtingu upplýsinga um veðsetningu á íslenska hlutabréfamarkaðnum er stigið enn eitt skrefið í átt að auknu gagnsæi á markaði, sem er einn af hornsteinum hans.“ segir Baldur Thorlacius, forstöðumaður eftirlitssviðs Nasdaq Iceland.
Upplýsingar um veðsetningu markaðarins má finna í Markaðstilkynningum á vef Kauphallarinnar.