Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er í opinberri heimsókn í Frakklandi þar sem hann fundaði með nýkjörnum forseta Frakklands, Emmanuel Macron, í gær. Donald og Melania Trump munu fagna Bastillu-deginum, þjóðhátíðardegi Frakklands, í dag ásamt frönsku forsetahjónunum.
Á blaðamannafundi eftir tveggja klukkustunda langan fund þeirra í Élysée-höll undirstrikaði Macron ágreining Frakklands og Bandaríkjanna í loftslagsmálum en sagði ríkin ætla að vinna saman gegn hryðjuverkaógninni í heiminum.
Trump neyddist til þess að eyða þó nokkrum tíma í að verja son sinn, Donald Trump yngri, vegna fundar hans með rússneskum lögmanni í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum í fyrra. Trump yngri leysti frá skjóðunni á Twitter nýverið þar sem hann birti öll tölvupóstsamskipti sín. Fjölmiðlum vestanhafs þykja póstarnir varpa nýju ljósi á samskipti kosningabaráttu Trump við rússneska sendifulltrúa.
Á blaðamannafundinum í Frakklandi gaf Bandaríkjaforseti í skyn að sér gæti enn snúist hugur varðandi útgöngu Bandaríkjanna úr Parísarsamkomulaginu. „Eitthvað gæti gerst hvað varðar Parísarsamkomulagið. Við sjáum hvað setur. Við munum tala um það á næstu misserum,“ sagði Trump áður en hann dró í land. „Ef það gerist þá verður það dásamlegt, ef það gerist ekki þá verður það allt í lagi líka.“
Ánægður með hersýningu
Trump kom til Frakklands í gær, fimmtudag. Hans beið stór hersýning í herstöðinni í Les Invalides þar sem Macron og Trump tóku út hernaðarmátt Frakklands.
Miðað við lýsingar breska dagblaðsins The Guardian virtist þetta hafa kætt bandaríska forsetann sem hefur sjálfur sagst vera mikill herkall. Trump klappaði Macron reglulega á bakið og tók ítrekað í höndina á honum.
Macron virðist ætla að beita þessari aðferð í samskiptum sínum við leiðtoga erlendra stórvelda; Undirstrika ríka sögu og mátt Frakklands með stæl. Vladimír Pútín fékk í það minnsta sömu meðferð þegar hann heimsótti Macron. Þessar sýningar eru ekki síður handa íbúum Frakklands og Evrópu.
Það fór betur á með þessum nýkjörnu forsetum í Frakklandi en í Belgíu fyrr á þessu ári þar sem stíft handaband þeirra varð að umtalsefni. Trump leið greinilega vel í samfylgd með Macron og bauð honum far í brynvörðum forsetabílnum sem kallast „The Beast“, eða Skepnan.
Trump var ekki aðeins ánægður með hernaðarmátt Frakklands. Þegar Donald og Melania fylgdu Emmanuel og Brigitte um sögufræga staði snéri Trump sér við á einum tímapunkti og sagði við Brigitte: „Þú ert í svo góðu formi.“ „Dásamleg“. Hann snéri sér þá að eiginmanni hennar Emmanuel og sagði: „Hún er í svo góðu formi.“