Frá og með deginum í dag er hópbifreiðum og breyttum fjallabílum meinað að aka á völdum svæðum í miðborginni. Samhliða því hafa sérmerktar stoppistöðvar verið settar upp fyrir ferðamenn á svæðinu. Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar.
Reglur um bann á akstri stærri bíla í miðborginni voru kynntar fyrr á þessu ári og samþykktar í borgarráði 11. maí síðastliðinn. Bannið, sem gildir fyrir hópbifreiðar og sérútbúna jeppa í atvinnurekstri, nær til skyggða svæðisins á myndinni hér að neðan, en heimilt verður þó að aka um Lækjargötu. Undanþegin banni eru m.a. ökutæki merkt Reykjavíkurborg, skólabifreiðar og akstursþjónusta fatlaðra.
Settar hafa verið upp rútustoppistöðvar til að auðvelda ferðamönnum að komast í og úr hópferðabílum, en þær eru merktar á mynd hér að ofan. Viðmiðunartími fyrir hópferðabíla að stöðva á þessum stöðum eru fimm mínútur. Til viðbótar við þessi tólf stæði munu rísa upp stöðvar við Tryggvagötu, Snorrabraut og Austurbæ á næstu vikum.