Ríkisskattstjóri hefur fjögur mál, sem tengjast þeim sem fluttu fé til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans, til sérstakrar skoðunar.
Frá þessu var greint í fréttum RÚV í gærkvöldi, en fram kom í frétt um málið, að búist sé við því að upplýsingar frá Lúxemborg og Sviss geri mögulegt að endurákvarða skatt á enn fleiri Íslendinga sem voru í keyptu skattaskjólsgögnunum.
Í Panamaskjölunum, sem ríkisstjórnin keypti fyrir tveimur árum á 37 milljónir króna, var að finna nöfn 21 Íslendings sem flutti fé til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans og naut þannig afsláttar af krónunum sem keyptar voru.
Nú þegar hafa þessi gögn skilað 500 milljónum í ríkiskassann og útlit fyrir að upphæðin muni hækka enn frekar.
Ekki hefur verið upplýst um það, hverjir það voru sem komu með fjármuni í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans, en bankinn segist ekki hafa lagaheimildir til að upplýsa um það.