Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að heimila ekki kaup Haga á Lyfju hf. er áfall fyrir smásölurisann íslenska.
Með kaupunum hefði félagið aukið breidd í rekstrinum, og verið betur í stakk búið til að mæta vaxandi samkeppni, ekki sést eftir að Costco opnaði vöruhús sitt í maí síðastliðnum.
Costco hefur fengið ótrúlegar viðtökur hjá Íslendingum og íslenskum fyrirtækjum, en í það minnsta 70 þúsund aðildarkort hafa verið seld hjá Costco til þessa, og fjölgar nýjum korthöfum stöðugt. Costco er alþjóðlegur smásölurisi og nemur markaðsvirði félagsins tæplega 80 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur meira en áttföldu heildarvirði íslenska hlutabréfamarkaðarins.
Ríkið fékk Lyfju í fangið
Íslenska ríkið eignaðist Lyfju en fyrirtækið var hluti af stöðugleikaframlagi kröfuhafa Glitnis, og fór Lindarhvoll, dótturfélag ríkisins, með eignarhald á félaginu.
Lyfja hf. samanstendur af móðurfélaginu Lyfju hf. ásamt dótturfélögunum Heilsu ehf. og Mengi ehf. Lyfja hf. rekur samtals 39 apótek, útibú og verslanir, auk lyfjaskömmtunar, um land allt undir merkjum Lyfju, Apóteksins og Heilsuhússins. Heildarvelta Lyfju hf. var 9 milljarðar kr. á árinu 2015.
Heildarverðmæti Lyfju hf. við gerð kaupsamnings er um 6,7 milljarðar króna, samkvæmt tilkynningu um viðskipti á þeim tíma þegar gengið var frá þeim. Verðmat Haga hf. byggði á ársreikningum félagsins undanfarin ár og rauntölum rekstrar fyrir fyrstu 9 mánuði ársins 2016.
Íslenska ríkið er því nú með Lyfju enn á sínum snærum, og má búast við því að söluferli á félaginu fari aftur af stað innan ekki svo langs tíma.
Hagar segja í tilkynningu til kauphallar, að félagið muni taka ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til sérstakrar skoðunar.
Hvað gerist með kaupin á Olís?
Tilkynnt var um kaup Haga á Olíuverslun Íslands, Olís, ekki alls fyrir löngu, og var þá einnig fyrirvari um samþykkt Samkeppniseftirlitsins. Kaupverð Olís var 9,1 milljarður króna, og því um meira umfang viðskipta að ræða. Hugsanlega mun Samkeppniseftirlitið einnig hafna þeim kaupum, en staða Haga á smásölumarkaði hefur verið skilgreind markaðsráðandi, og því getur félagið ekki leyft sér hvað sem er. Búast má við niðurstöðu í það mál undir lok þessa árs.
Markaðsvirði félagsins er nú 45,6 milljarðar króna og hefur fallið um 15 milljarða skömmum tíma, eða frá því Costco opnaði vöruhús sitt. Rekstur félagsins hefur þó verið stöðugur og góður um árabil, en eins og kunnugt er rekur félagið meðal annars verslanir undir merkjum Bónus og Hagkaup.