Repúblikönum í bandaríska þinginu mistókst í annað sinn að fá heilbrigðismálafrumvarp sitt staðfest í öldungadeild þingsins í gær. Frá þessu er greint á vef Reuters.
Flokkurinn hefur meirihluta í báðum deildum þingsins og hefur forseta í Hvíta húsinu á sínum snærum en tekst ekki að afla stuðnings innan eigin raða fyrir nýju heilbrigðismálafrumvarpi.
Það hefur verið repúblikönum mikið kappsmál að geta afnumið heilbrigðislög fyrrverandi forseta Baracks Obama, Obamacare. Það var eitt af þeirra helstu kosningaloforðum í þing- og forsetakosningum síðasta vetur.
„Því miður þá er það ljóst núna að tilraun okkar til að afnema og samþykkja ný lög í stað Obamacare mun ekki takast,“ lét Mitch McConnel, leiðtogi meirihluta repúblikana í öldungaþinginu, hafa eftir sér í tilkynningu til fjölmiðla.
Repúblikanar hafa lofað því í sjö ár að um leið og þeir myndu ráða báðum deildum þingsins og eiga forseta í Hvíta húsinu myndu þeir afnema heilbrigðislöggjöf Obama, sem þeir telja of kostnaðarsama. Almenningur telur Obamacare hins vegar mun betra en allar tillögur repúblikana, miðað við skoðanakannanir.