Kynferðisofbeldi innan kaþólsku kirkjunnar er enn á ný komið upp á yfirborðið, eftir að þýsk rannsóknarnefnd komst að því að minnst 547 drengir í þýskum kórskóla hafi verið beittir kynferðislegu- eða líkamlegu ofbeldi. Í umfjöllun rannsóknarnefndarinnar segir að margir þeirra hafi upplifað vistina innan kirkjunnar sem helvíti á jörðu.
Ofbeldið átti sér stað hjá Regensburger Domspatzen drengjakórnum og einnig í skólastarfi, að því er segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC um níðingsverkin og skýrslu rannsóknarnefndarinnar.
Í það minnsta 49 prestar beittu börn ofbeldi yfir áratugatímabil, frá 1945 til 1990. Ofbeldið var þaggað niður innan kirkjunnar, en málið svipar mikið til annarra mála sem komið hafa upp innan kaþólsku kirkjunnar, víðs vegar um heiminn.
Lögmaðurinn Ulrich Weber, sem stýrði rannsókninni, sagði á kynningarfundi vegna málsins að líklega væru fórnarlömb ofbeldis af hálfu presta kaþólsku kirkjunnar mun fleiri, eða allt að 700.