Bandaríska rafbílafyrirtækið Tesla þarf að safna mörgum milljörðum Bandaríkjadala á næstu 12 mánuðum til þess að greiða upp tap rekstursins, að því er kemur fram í greiningu greiningardeildar Citi-bankans. CNBC-fréttastofan bandaríska greinir frá.
Tesla er nú að setja þriðju bílgerð sína á markað, Tesla Model 3, og fjárfestar segjast vera vongóðir um að bíllinn muni seljast vel. Þrátt fyrir það telur Citi það áhættusamt að fjárfesta í Tesla um þessar mundir.
„Fjárstreymi Tesla er neikvætt um þessar mundir og við teljum að fyrirtækið muni þurfa aukið rekstrarfé. Erfiðleikar við að sækja fjármagn gætu sett töluverðan þrýsting á fjárhagsstöðu fyrirtækisins,“ segir í minnisblaði Italy Michaeli, greinanda Citi, sem sent var viðskiptavinum bankans.
Michaeli segir vera jákvæðar horfur fyrir Tesla sem er leiðandi á markaði með bíla framtíðarinnar, en að hann myndi vilja bíða með að setja fjármagn í reksturinn þar til rekstrarreikningurinn líti betur út.
Greiningardeildin spáir því að fjárstreymi Tesla verði neikvætt um 1,1 milljarð dala í lok árs 2017 og að það verði orðið neikvætt um fjóra milljarða dala á fyrsta ársfjórðungi ársins 2018. Tapið er vegna framleiðslu og þjónustukostnaðar við nýja bílinn Model 3. Michaeli segir fjárstreymið ekki verða jákvætt fyrr en árið 2019.