Eignir í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar, sem oftast er kenndur við Subway, hafa verið frystar samkvæmt ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar um, frá 19. júlí síðastliðnum. Þetta sést á gögnum um málið, sem eru endurrit úr gerðarbók, sem Kjarninn hefur undir höndum. Lögmaður Skúla og félags hans, Sjöstjörnunnar, staðfesti að kyrrsetningin hefði átt sér stað.
Kyrrsetningin er gerð í fjórum fasteignum, á Selfossi, Seltjarnarnesi og tveimur í Ölfusi.
Það var Sveinn Andri Sveinsson hrl. skiptastjóri í þrotabúi EK 1923, sem áður hét Eggert Kristjánsson hf. heildverzlun, sem gerði kröfu um kyrrsetningu eignanna.
Erlendur Gíslason hrl. lögmaður Skúla og félags hans, sem kyrrsetningin beinist að, sagði í samtali við Kjarnann í morgun að kyrrsetningunni verði mótmælt fyrir dómi. Hann segir að það sé hans mat, og umbjóðanda hans, að engin rök séu fyrir þeim ásökunum sem kyrrsetningin byggir á, og að um málið verði tekist fyrir dómi.
Sveinn Andri hefur þegar kært Skúla og Guðmund Hjaltason, framkvæmdastjóra Sjöstjörnunnar ehf., til héraðssaksóknara fyrir auðgunarbrot. „Brot kærðu lýsa sér í því að þeir hafi með ólögmætum hætti tileinkað sér fyrir hönd Sjöstjörnunnar kr. 21.316.582 með því að láta starfsmann Íslandsbanka þann 15. mars 2016 millifæra þá fjárhæð af bundinni bankabók í eigu EK yfir á reikning Sjöstjörnunnar,“ segir m.a. í kærunni frá því í janúar.
Samkvæmt endurritinu úr gerðarbók, er meðal annars tekist á um hversu mikið eignir eru skuldsettar, miðað við veðhlutfallsútreikninga, en samkvæmt bókfærðu virði eigna og skulda, þá nemur veðhlutfallið 91 prósent á tilteknum eignum sem nefndar eru í kyrrsetningarbeiðni. Landsbankinn er helsti lánveitandinn, samkvæmt upplýsingunum sem koma fram í endurritinu.
Guðmundur mótmælir því að þetta sé hið rétta hlutfall, og segir markaðsvirði eigna vera 3,3 milljarðar en ekki 1,8, eins bókfært virði, samkvæmt samanteknum ársreikningi fyrir síðasta ár, ber með sér.
Deilur vegna gjaldþrots EK 1923 hafa verið viðvarandi alveg frá því félagið var tekið til gjaldþrotaskipta á síðasta ári, en Sveinn Andri skiptastjóri telur að Skúli og félag hans hafi gætt sinna hagsmuna á kostnað annarra kröfuhafa, en því hefur verið mótmælt kröftuglega, eins og áður segir. Ekki sér fyrir endann á þessum deilum.
Endurrit úr gerðarbók má sjá hér meðfylgjandi, en þar eru helstu atriði þessara deilna rakin í nokkrum smáatriðum.