J.K. Rowling, rithöfundur Harry Potter- bókanna, segist æta að gefa út tvær nýjar bækur sem tengjast bókaseríunum frægu í haust.
Á miðvikudaginn greindi Reuters frá tilkynningu Bloomsbury, útgefanda Harry Potter- bókanna, um að tvær nýjar bækur kenndar við galdrastrákinn væru væntanlegar þann 20. október í haust. Þann sama dag mun bókasafnssýning um Harry Potter opna í British Library sem ber heitið „A History of Magic“, en í ár eru 20 ár liðin frá útgáfu fyrstu bókarinnar í seríunni frægu.
Bækurnar sem um ræðir munu heita „Harry Potter: A History of Magic“ og „Harry Potter – A Journey Through A History of Magic,“ en þær eru ekki hluti af bókaseríunni um Harry Potter. Hins vegar er hugsað um þær sem viðbót í galdraheiminn sem Rowling bjó til í kringum söguna um Harry, Ron og Hermione. Þar mun námsefni Hogwartsskóla vera sérstaklega tekið fyrir, en í bókunum munu einnig leynast skissur og uppköst höfundar úr fyrri Harry Potter- bókum.