Bandaríski bankinn Bank Of America ætlar sér að stýra starfsemi sinni í Evrópu frá Dublin í nánustu framtíð, en um þetta tilkynnti bankinn í gær. Með þessu er bankinn að bregðast við Brexit-áformum breskra stjórnvalda, en Bank Of America hefur verið með höfuðstarfsemi sína í Evrópu í City hverfinu í London.
Bankinn hefur þó einnig verið með starfsemi í Dublin, og í tilkynningu frá bankanum segir að það sér rökrétt skref að stýra starfseminni í Evrópu frá Dublin. Í dag eru um 700 starfsmenn hjá bankanum í Dublin en gert er ráð fyrir að þeim fjölgi nokkuð á næstu misserum, að því er fram kemur í New York Times.
Margir alþjóðlegir bankar, bæði evrópskir og bandarískir, hafa verið minnka starfsemi sína í London að undanförnu, þar sem óvissa ríkir um regluverk og fleiri atriði, þegar til þess kemur að Bretland fari úr Evrópusambandinu.
Frönsk og þýsk stjórnvöld hafa lagt hart að stórum fyrirtækjum að færa starfsemi frá London til þeirra. Þá hafa borgaryfirvöld í París og Frankfurt gert slíkt hið sama, í þeirri vona að draga til sín tugir þúsund hálaunastarfa, sem fylgja alþjóðlega fjármálageiranum.
Markaðsvirði Bank of America er nú 236,2 milljarðar Bandaríkjadala, en meðal dótturfélaga bankans er eignarstýringarisinn Merrill Lynch, sem bankinn eignaðist eftir hrunið á fjármálamörkuðum, 2007 til 2009.