Jared Kushner, einn helsti ráðgjafi og tengdasonur Donalds Trump forseta Bandaríkjanna, segist í yfirlýsingu ekki hafa verið í neinu leynimakki með neinum. Kushner kemur fyrir þingnefnd bandaríska þingsins og ber vitni í dag.
Þinghaldið og yfirheyrslan yfir Kushner verður lokað fyrir fjölmiðlum. Tilkynninguna sendi Kushner frá sér að morgni dags í Bandaríkjunum. Frá þessu er greint á vef Reuters.
„Ég var ekki í leynimakki og veit ekki um neinn annan sem kom að forsetaframboðinu sem var í leynimakki með erlendum ríkisstjórnum,“ segir Kushner í tilkynningu sinni.
„Ég átti ekki í neinum óviðeigandi samskiptum. Ég hef ekki reitt mig á rússneskt fé til að fjármagna viðskipti mín í einkageiranum,“ segir hann enn fremur.
Lestu meira
Tengdasonur forsetans segist hafa „hugsanlega átt fjögur samtöl við rússneska fulltrúa“ á meðan kosningabaráttan fór fram og eftir að Donald Trump var kosinn forseti.