Gjaldþrotabeiðnir á öðrum ársfjórðungi 2017 voru um 55% færri en fyrir ári síðan. Á sama tímabili fækkaði nýskráningum fyrirtækja einnig um 11%. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu.
Tölurnar sýna að dregið hafi úr hræringum á fyrirtækjamarkaði miðað við árið 2016. Nýskráningar einkahlutafélaga í apríl, maí og júní voru 689, en til samanburðar voru þær 771 á vormánuðum í fyrra. Mest fækkaði nýskráningum í landbúnaði, skógrækt og fiskveiðar, en næst mest á sviði upplýsinga og fjarskipta.
Samhliða færri nýskráningum hefur gjaldþrotabeiðnum fækkað stórlega á einu ári. Á öðrum ársfjórðungi 2017 voru 157 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta miðað við 352 í fyrra, en það jafngildir 55% fækkun. Athygli vekur að samhliða færri nýskráningum fækkaði gjaldþrotum einnig mikið á meðal fyrirtækja á sviði upplýsinga og fjarskipta, eða um 69%.
Tölur Hagstofu benda til þess að atvinnulíf sé að róast frá árinu á undan, en árið 2016 var fimm ára met slegið í fjölda nýskráðra fyrirtækja og þriggja ára met í fjölda gjaldþrotaskipta. Nýbirtar tölur fyrir 2017 eru meiri í takt við þróun fyrri ára heldur en tölurnar frá því í fyrra, eins og sést á mynd hér að ofan.