Kaupfélag Skagfirðinga á nú 14,15 prósent í Þórsmörk, einkahlutafélaginu sem á útgáfufélag Morgunblaðsins Árvakur, eftir að félagið Íslenskar sjávarafurðir bætti við hlut sinn. Íslenskar sjávarafurðir eru í eigu Kaupfélags Skagfirðinga.
Núverandi eigendur Árvakurs, juku hlutafé sitt í sumar um 200 milljónir króna. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Kaupfélag Skagfirðinga lagði til mest af þeim peningum sem lagðir voru til viðbótar í félagið og við það minnkaði hlutur Ramses II, félags í eigu Eyþórs Arnalds, um nærri tvö prósentustig, og er nú 22,87 prósent.
Eyþór Arnalds er enn stærsti einstaki eigandi Árvakurs en félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja eru hins vegar enn með samanlagt stærstan eignarhlut. Ísfélagið á sjálft 13,43 prósent hlut og félagið Hlynur A, í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélagsins, á 16,45 prósent hlut. Auk þess á félagið Legalis 12,37 prósent hlut. Eigendur þess eru m.a. Sigurbjörn Magnússon, stjórnarformaður Árvakurs og stjórnarmaður í Ísfélaginu, og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Ísfélagsins. Samanlagður hlutur þessarar blokkar í Árvakri er 42,25 prósent.
Íslenskar sjávarafurðir eru þriðji stærsti eigandi Þórsmerkur ehf. eftir hlutafjáraukninguna.
Eignarhaldsupplýsingar útgáfufélags Morgunblaðsins Árvakurs voru uppfærðar á vef Fjölmiðlanefndar 6. júlí síðastliðinn. Eignarhald Morgunblaðsins samkvæmt skráningu fjölmiðlanefndar má lesa hér að neðan:
Eigendur Árvakurs:
- Þórsmörk ehf., 99%
- Legalis sf., forsvarsmaður Sigurbjörn Magnússon, 1%
Eigendur Þórsmerkur ehf.:
- Ramses II ehf., eigandi Eyþór Laxdal Arnalds, 22,87%
- Hlynur A ehf., forsv.maður Guðbjörg Matthíasdóttir, 16,45%
- Íslenskar sjávarafurðir ehf., forsv.m. Sigurjón Rafnsson, 14,15%
- Ísfélag Vestmannaeyja hf., forsv.maður Stefán Friðriksson 13,43%
- Legalis sf., forsv.maður Sigurbjörn Magnússon, 12,37%
- Rammi hf., forsv.maður Ólafur Marteinsson, 6,14%
- Þingey ehf., forsv.maður Aðalsteinn Ingólfsson 4,10%
- Fjárfestingafélagið GIGAS ehf., forsv.m. Halldór Kristjánsson, 3,52%
- Brekkuhvarf ehf., 2,05%
- Lýsi hf., forsv.m. Katrín Pétursdóttir, 1,69%
- Fari ehf., forsv.maður Jón Pálmason, 1,76%
- Skollaborg ehf., forsv.m. Einar Valur Kristjánsson, 1,48%