Samkvæmt nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri Össurar var hagnaður þess á öðrum ársfjórðungi um tveimur milljónum minna en fyrir sama tímabil í fyrra. Fyrirtækið lækkar einnig væntingar sínar til EBITDA-framlegðar vegna óhagstæðra gengissveiflna.
Í takti við væntingar
Í tilkynningu fyrirtækisins kemur fram að sala fyrirtækisins hafi aukist um 6%, en færri viðskiptadagar vegna seinna páska í ár höfðu neikvæð áhrif á söluna.
Framlegð fyrirtækisins lækkaði einnig lítillega, í ár nam hún 89 milljónum dölum og 62% af sölu miðað við 89 milljónir og 64% af sölu fyrir sama tímabil í fyrra. Sömu sögu er að segja um hagnað, en hann nam 13 milljónum og 9% af sölu, miðað við 15 milljónum og 10% af sölu á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Minni framlegð virðist aðallega vera vegna tveggja þátta: Óhagstæðra gengissveiflna og aukinn framleiðslukostnað í mörgum verksmiðjum Össurar.
Að sögn Jóns Sigurðssonar, forstjóra Össurar, eru niðurstöðurnar í takti við væntingar fyrirtækisins. „Við sjáum heilbrigðan innri söluvöxt það sem af er árs 2017, en færri söludagar á öðrum ársfjórðungi hefur neikvæð áhrif á vöxt á öðrum ársfjórðungi,“ segir meðal annars í tilkynningu fyrirtækisins.
Sterkur dollar veikir framlegð
Gengissveiflur höfðu mikil áhrif á afkomu Össurar, en samkvæmt fyrirtækinu er það sérstaklega viðkvæmt gagnvart sveiflum í gengi Bandaríkjadals gegn öðrum stórum gjaldmiðlum.
Sveiflur í gengi íslensku krónunnar hafi einnig töluverð áhrif, en þar sem fyrirtækið geri upp í dölum og stór hluti starfsemi þeirra fer fram í Evrópu var það styrking Bandaríkjadals gagnvart evru, pundi og sænsku krónunni sem hafði mest áhrif.
Vegna umræddrar gengisstyrkingar Bandaríkjadals ákvað fyrirtækið að lækka væntingar sínar til EBITDA-framlegðar fyrir 2017 úr 19-20% niður í 18-19%. Hins vegar haldast allar aðrar spár fyrirtækisins óbreyttar.
Talað um múrinn
Minnst var á hugmyndir sitjandi Bandaríkjaforseta um tollmúr milli Bandaríkjanna og Mexíkó í kynningu uppgjörsins, en hluti framleiðslu fyrirtækisins fer fram í Mexíkó. Hins vegar metur Össur svo að framleiddar vörur í Mexíkó sé of lítill hluti af heildarsölu fyrirtækisins í Bandaríkjunum til þess að hafa áhrif á afkomu fyrirtækisins.