Sænska ríkisútvarpið, SVT, segir mögulegt að Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, muni segja af sér með ríkisstjórn sinni í dag í kjölfar vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar gegn þremur ráðherrum hennar. Ríkisstjórnin hefur nú fundað fyrir luktum dyrum í rúma tvo tíma.
Uppfært: Ríkisstjórnin mun halda blaðamannafund í fyrramálið, fimmtudag klukkan 10 að staðartíma í Svíþjóð. Engar yfirlýsingar verða gefnar fyrr en þá.
Fyrr í dag komu ráðherrar sænsku ríkisstjórnarinnar saman til fundar í Rosenbad-húsinu í Stokkhólmi, en búist er við því að framtíð hennar verði ákveðin á næstu andartökum. SVT segir forsætisráðherrann eiga fáa kosti í stöðunni, annað hvort verði hann að boða til nýrra kosninga eða víkja ráðherrum sínum úr embætti.
Stjórnmálafræðingurinn Jonas Hinnfors segir fall ríkisstjórnarinnar mögulega vera vænsti kostur forsætisráðherrans, í ljósi þess að hún sé rúin trausti: „Það er tiltölulega líklegt ef hann (Löfven) vill forðast að leiða mjög veika ríkisstjórn sem stjórnarandstöðublokkin getur stöðugt hótað með vantraustsyfirlýsingu,“ segir Hinnfors í svartíma á SVT.
Í yfirlýsingu stjórnarandstöðu Svíþjóðar (Alliansen) fyrr í dag var lýst yfir vantrausti á Peter Hultqvist varnarmálaráðherra, Anders Ygemann innanríkisráðherra og Anna Johansson innviðaráðherra. Tillagan var lögð fram eftir að komið hafði í ljós að Samgöngustofa Svíþjóðar, sem er undir innviðaráðuneytinu, hafði lekið persónuupplýsingum og hernaðarleyndarmálum til erlendra verktaka. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við lekanum hafa verið harðlega gagnrýnd, en fjöldi ráðherra vissi af honum án þess að viðhafast neitt.
Mikil spenna ríkir um um framhaldið, en málið er á forsíðu ríkisfjölmiðlanna í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Kjarninn hefur fjallað ítarlega um atburðarrás málsins í fréttum í gær og í dag.