Svo virðist sem bandarísk stjórnvöld ætli sér að setja upp frekari viðskiptaþvinganir gegn Venesúela ef Nicolás Maduro, forseti landsins, reynir að breyta stjórnarskrá landsins. Viðskiptaþvinganirnar gætu haft neikvæð áhrif, ekki einungis á lamaðan efnahag Venesúela, heldur einnig Bandaríkin. Þetta kom fram í frétt á vef New York Times í gær.
Á miðvikudaginn var greint frá því að ríkisstjórn Bandaríkjanna hafi sett á viðskiptabann hjá 13 núverandi og fyrrverandi venesúelskum ríkisstjórnarmeðlimum vegna fyrirhugaðra einræðistilburða forsetans þar í landi, Nicolás Maduro. Maduro hyggst skipa í stjórnlagaráð næsta sunnudag, en Bandaríkjastjórn telur ráðið muni koma stjórnarskrárbreytingum í gegn sem gefa Maduro auknar valdheimildir.
Ekki er talið að umrætt viðskiptabann muni hafa efnahagsleg áhrif, en samkvæmt Mnuchin verða auknar viðskiptaþvinganir við Venesúela mögulega settar á hætti Maduro ekki við skipan ráðsins.
Mikið í húfi
Mikil verðmæti eru í húfi ef af þvingununum verður í báðum löndunum. Umfangsmikil olíuviðskipti eru milli landanna, en olía Venesúela er gróf og lítið unnin og Bandaríkin er eitt fárra ríkja sem hefur nógu góðar olíuhreinsistöðvar fyrir hana. Verði af viðskiptabanni milli landanna myndi því ríkisrekni olíuframleiðandi Venesúela, PDVSA, missa sinn stærsta viðskiptavin.
Sömuleiðis myndu þvinganir hafa neikvæð áhrif á utanríkisviðskipti í Bandaríkjunum, en venesúelsk olía nemur einum tíunda af heildarinnflutningi þar í landi.
Enn fremur, ef Bandaríkjamenn hætta að kaupa olíu frá Venesúela mætti búast við hækkandi heimsmarkaðsverði á olíu. Hækkandi olíuverð myndi hafa jákvæð áhrif á olíuframleiðslulöndin Íran og Rússland og drægi þannig úr neikvæðum áhrifum viðskiptaþvingana Bandaríkjanna við þau.
Samkvæmt frétt NYT myndu neikvæð efnahagsáhrif í Venesúela einnig smitast til Bandaríkjanna að einhverju leyti, en David L. Goldwyn, sendiherra orkumála í fyrri ríkisstjórn Obama, sagði í samtali við NYT að harðar viðskiptaþvinganir gætu leitt til flóttamannabylgju til Bandaríkjanna.
Ógnaröld í Venesúela
Ógnaröld ríkir í Venesúela núna, en tugir þúsundir íbúa landsins hafa flúið til nágrannalanda á meðan hagkerfi landsins eru rjúkandi rústir og ofbeldi og hungur færist í aukana. Kreppa hefur ríkt í landinu vegna lágs hrávöruverðs undanfarinna ára, en stjórnvöld þar í landi hafa einnig sætt mikilli gagnrýni fyrir seðlaprentun og yfirtökur ríkisins á ýmsum fyrirtækjum.
Útflutningur landsins hefur beðið hnekki vegna ástandsins á síðustu árum. Til að mynda hefur innflutningur á vörum frá Venesúela til Íslands snarlækkað, en samtals hefur verið flutt inn að andvirði 400 milljóna króna í fyrra, miðað við rúma 6 milljarða árið 2015.
Líklegt er að Maduro muni skipa í stjórnlagaráð þvert á viðvaranir Bandaríkjamanna, ef marka má nýleg orð hans: „(Ef Trump) hefur vogað sér að segja nei við skipun stjórnlagaráðs, þá svörum við: „já, já, já – stjórnlagaráðið mun koma saman.“