Jerry Brown, ríkisstjóri í bandaríska ríkinu Kaliforníu, hefur framlengt loftslagsáætlun ríkisins um tíu ár. Í Kaliforníu verður þess vegna sett takmark á magn gróðurhúsalofttegunda sem blása má út í andrúmsloftið og markaði með losunarheimildir haldið við.
Alríkisstjórn Bandaríkjanna undir forsæti Donalds Trump hefur sagt sig frá Parísarsamkomulaginu um aðgerðir í loftslagsmálum. Það tilkynnti Trump í byrjun júní. Hann hefur síðan keppst við að afnema loftslagsregluverk forvera síns í embætti, Baracks Obama.
Markaður Kaliforníu með losunarheimildir í Kaliforníu er eini slíki markaðurinn í öllum Bandaríkjunum. Til hans var stofnað árið 2006 í ríkisstjóratíð leikarans og Torímandans Arnolds Schwarzenegger.
Schwarzenegger var viðstaddur þegar Brown, ríkisstjóri úr röðum Demókrataflokksins, framlengdi loftslagslöggjöfina í vikunni. Hann benti á að hagkerfi Kaliforníu hefði vaxið hraðar en hagkerfi Bandaríkjanna allra síðan loftslagslöggjöfin var samþykkt árið 2006. „Kannski ættu íhaldsamir repúblikanar að hætta að ljúga að fólkinu. Hættið að ljúga að fólkinu! Hættið því!“ sagði Schwarzenegger í ávarpi sínu.
Loftslagsregluverk Kaliforníu er talið vera til marks um að hægt er að beita lögum og reglum til þess að gera losunarheimildir að markaðsvöru. Hagkerfi Kaliforníuríkis eins og sér er sjötta stærsta hagkerfi heims á eftir hagkerfum Bandaríkjanna, Kína, Japan, Þýskalands og Bretlands.
Ísland á aðild að samskonar losunarheimildamarkaði og í Kaliforníu; Í gegnum EES-samninginn er Ísland aðili að viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði, flugsamgöngum og flutninga á hafi.
Kalifornía finnur fyrir loftslagsbreytingum
Kaliforníuríki á vesturströnd Bandaríkjanna er eitt þeirra ríkja í Norður-Ameríku sem fundið hefur hvað mest fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Miklir þurrkar hafa verið í Kaliforníu á undanförnum árum vegna breyttra veðurmynstra. Það hefur gert hættuna á gróðureldum mun meiri og eignatjón vegna þeirra eru nú mun tíðari.
Breytt veður hefur einnig orðið til þess að vatnsforði ríkisins er orðinn rýr og óstöðugur. Úrkoma er nú nær öll í formi rigningar sem hefur áhrif á straumvatn og grunnvatnsstöðu yfir allt árið.
Í Yosemite-þjóðgarðinum í Sierra Nevada-fjallgarðinum hefur snjókoma minnkað mikið á undanförnum árum. Áin sem rennur í gegnum þjóðgarðinn fræga hættir þess vegna orðið að renna um mitt sumar, svo dæmi sé tekið.
Stjórnvöld í Kaliforníuríki og borgum ríkisins hafa þurft að grípa til þess ráðs að skammta vatn til borgara, vegna þessa.
Til marks um hversu óreglulegt veðrið er orðið í Kaliforníu var síðasti vetur blautasti vetur í ríkinu síðan mælingar hófust.