Þingmönnum Repúblikanaflokksins á bandaríska löggjafarþinginu tókst ekki að fella heilbrigðistryggingakerfið úr gildi sem lögfest var í tíð Baracks Obama í Washington í gær. Frá þessu er greint á vef Reuters.
Síðustu tilraunir repúblikana á þinginu, undir forystu Mitch McConnell, sem kosið var um í gær snérust um heilbrigðislöggjöfin – Obamacare – yrði felld úr gildi og að þingið fengi tveggja ára frest til þess að koma með nýja heilbrigðislöggjöf sem myndi koma í stað Obamacare.
Í atkvæðagreiðslunni var þessi tillaga felld með 55 atkvæðum gegn 45, þrátt fyrir að repúblikanar stjórni nú báðum deildum þingsins og Hvíta húsinu. Sjö repúblikanar greiddu atkvæði gegn tillögunni.
Repúblikanaflokkurinn og fulltrúar hans hafa lofað því í sjö ár, eða síðan Obamacare var samþykkt og leitt í lög, að afnema lögin og fá ný staðfest þegar flokkurinn stjórnaði öllum stofnunum löggjafar- og framkvæmdavaldsins.
Það gerðist svo í fyrsta sinn á þessum sjö árum í janúar að forseti úr röðum repúblikana tók við völdum í Hvíta húsinu. Hann hefur hins vegar sýnt að hann hafi einfaldlega ekki nógu yfirgripsmikla þekkingu á gangi mála í þinginu – hvað þá á heilbrigðistryggingakerfinu – til þess að verða öflugur frummælandi nýrra heilbrigðislaga.
Þegar hefur verið reynt að smíða og leggja til nýtt heilbrigðiskerfi sem kæmi í staðinn fyrir Obamacare; Trumpcare. Því kerfi hefur verið hafnað og öllum útfærslum á því enda þóttu þær tillögur lélegar og innantómar. Þingmenn úr báðum flokkum fengu að heyra það í kjördæmum sínum. Þess vegna var ákveðið að láta á það reyna að efna helminginn af loforðinu og afnema löggjöf Obama. Það tókst ekki í gær.