Ólafur Torfason, stjórnarformaður Íslandshótela, segir útlit fyrir færri bókanir í ár en í fyrra og að greinilegt sé að farið sé að hægja á ferðaþjónustunni eftir gríðarlegan vöxt á skömmum tíma. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Spár um vöxt milli ára muni að óbreyttu ekki rætast, en það sem mest hefur munað um, að hans mati, er sterkt gengi krónunnar sem hefur hækkað verð mælt í erlendri mynt.
Bandaríkjadalur kostar nú 102 krónur, en fyrir tæpum tveimur árum kostaði hann 140 krónur, svo dæmi sé tekið.
Íslandshótel eru stærsta hótelkeðja landsins. Hótelin eru 17, þar af 11 á landsbyggðinni. „Það hefur hægt á vextinum. Á sama tíma í fyrra höfðum við áhyggjur af því hvernig við ættum að takast á við aukninguna. Það vandamál leystist af sjálfu sér með sterku gengi. Það er verri bókunarstaða en á sama tíma í fyrra, bæði í júlí og ágúst. Við fáum líka minna fyrir söluna í evrum,“ segir Ólafur í Morgunblaðinu í dag.
Þrátt fyrir að töluverð aukning hafi verið á fjölda ferðamanna til landsins á árinu, þá hefur ferðatími ferðamanna styst.