Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að það sé „einfaldlega góður bisness“ að fólk vilji búa annars staðar á Íslandi en í Reykjavík. Besta byggðastefnan séu greiðar samgöngur. Þar með talin séu jarðgöng, ferjur og flug. Þetta kom fram í stöðuuppfærslu sem ráðherrann setti á Facebook í gær.
Ástæða þess að Benedikt tjáði sig um málið var grein eftir Ívar Ingimarsson sem birtist á Kjarnanum í gær. Þar sagði Ívar að það væri ójafnvægi í gangi á Íslandi og að það halli á landsbyggðina í þeim efnum. Fólk sæi sér ekki fært að búa úti á landi þar sem þjónusta, afþreying, aðstaða, tækifæri og atvinna væru mun frekar í höfuðborginni. „Það þrífast ekki allir í borgum og hæfileikar allra nýtast ekki best þar, það er einfaldlega ekki pláss fyrir alla á einum stað til að blómstra og það vantar fólk út á land til að nýta þau tækifæri sem þar bíða samfélaginu til góða.[...]Það þarf að byggja upp sterka byggðarkjarna í hverjum fjórðungi sem hafa gott aðgengi að höfuðborginni, þannig mun fólki fjölga út á landi, en fjölgun fólks er lykilatriði þess að auka þjónustu, fjölga tækifærum, byggja upp aðstöðu og skapa atvinnu á sjálfbæran hátt sem mun á endanum leiða til jafnvægis milli landsbyggða og höfuðborgar.
Benedikt segir í stöðuuppfærslu sinni að með því að líta á flug sem almenningssamgöngur fyrir þá sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu ávinnist margt. Flugferðir verði til að mynda tíðari og hagkvæmari. „Þannig yrði ferðaþjónustan sterkari á þessum svæðum. Ungt fólk sem vill nýta sér kosti þess að búa á landsbyggðinni gæti notið þjónustu og menningar á höfuðborgarsvæðinu mun tíðar. Margir telja að slíkt tal sé landsbyggðarvæl, en það er einfaldlega góður bisness að fólk vilji búa annars staðar en í Reykjavík. Þannig er hægt að byggja upp ferðaþjónustu og ýmiss konar iðnað tengdan sjávarútvegi víða um landið.“