Kjartan Þór Eiríksson, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Kadeco, þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, frá stofnun félagsins árið 2006, hefur sagt starfi sínu lausu. Hann lætur samstundis að störfum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu, sem er að öllu leyti í eigu ríkisins.
Kjartani Þór var gert að gera munnlegar skýringar á viðskiptum sínum á Ásbrú og tengslum sínum við kaupendur eigna sem Kadeco hefur selt á síðustu árum á svæðinu á stjórnarfundi sem fram fór í lok júní. Stjórn félagsins ákvað í kjölfarið að óska eftir því að Kjartan geri stjórninni skriflega grein fyrir viðskiptum sínum á svæðinu. Kjarninn hefur óskað eftir upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um hvort það hafi verið gert en ekki fengið svör við þeirri fyrirspurn.
Málið snýst um tengsl Kjartans Þórs við Sverri Sverrisson. Félög tengd Sverri keyptu þrjár fasteignir af Kadeco á undanförnum árum á samtals 150 milljónir króna. Síðasta eignin sem félög tengd honum keyptu var seld í febrúar á þessu ári, nokkrum mánuðum eftir að Kjartan Þór og Sverrir hófu viðskiptasamband. Þeir eiga saman félagið Airport City á Ásbrú sem stundar fasteignaviðskipti, þó ekki við Kadeco.
Í tilkynningu frá Kadeco í dag kemur fram að við hlutverki Kjartans Þór taki Marta Jónsdóttir, sem verið hefur lögfræðingur félagsins. Kjartan Þór segir í tilkynningunni að hann sé þakklátur fyrir þau tíu ár sem hann hafi farið fyrir Kadeco og þann árangur sem náðst hafi. „Við höfum nú selt nær allar þær eignir sem félagið fékk til umsýslu með góðum hagnaði fyrir ríkið. Á sama tíma hefur byggst upp lífleg íbúabyggð og fjölbreytt atvinnustarfsemi á Ásbrú sem hefur styrkt samfélagið hér á Suðurnesjum mikið. Það liggur því fyrir að félagið stendur nú á tímamótum og fyrirsjáanlegt er að breytingar muni verða á hlutverki þess og starfsemi. Því tel ég að núna sé rétti tíminn fyrir mig til að láta af störfum hjá félaginu.“
Lagt niður í núverandi mynd
Kjarninn greindi frá því í lok júní að til standi að leggja starfsemi Kadeco niður í núverandi mynd. Skipt var um stjórn í félaginu fyrir um mánuði síðan og upprunalegu hlutverki þess, að selja fasteignir á Ásbrú, er nú lokið. vilji taka upp viðræður við heimamenn um hvernig sé hægt endurskoða starfsemina með það í huga.
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði við Kjarnann að hann hafi lýst þessari skoðun sinni á fundum með starfsfólki Kadeco í lok júnímánaðar. Nokkrum dögum áður var haldinn aðalfundur Kadeco og þar var kosin ný þriggja manna stjórn. Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafði verið formaður stjórnarinnar en vék ásamt tveimur öðrum stjórnarmönnum. Í stað Sigurðar Kára var Georg Brynjarsson, hagfræðingur og stjórnarmaður í Viðreisn, kjörinn stjórnarformaður. Auk hans komu tveir starfsmenn fjármála- og efnahagsráðuneytisins inn í stjórn Kadeco. Benedikt staðfesti við Kjarnann að þessar breytingar væru liður í því að leggja starfsemi Kadeco niður í núverandi mynd.
Georg, stjórnarformaður Kadeco, segir í tilkynningunni sem send var út í dag að stjórn félagsins muni á næstu vikum „endurskoða starfsemi og stefnu félagsins í samstarfi við hlutaðeigandi aðila á svæðinu. Þrátt fyrir minnkandi fasteignaumsvif er mikill fjöldi verkefna í gangi hjá félaginu og markmið endurskipulagningarinnar er að varðveita uppsafnaða þekkingu innan Kadeco og tryggja viðfangsefnum félagsins varanlegan farveg.“