Íslensku flugfélögin hafa haldið stöðu sinni við Leifsstöð, en þrátt fyrir fjölgun flugferða við flugstöðina milli ára stóðu Icelandair og WOW air fyrir 75% þeirra, líkt og þau gerðu á síðasta ári. Þetta kemur fram í frétt á vef Túrista í dag.
Samkvæmt fréttinni fóru um hundrað áætlunarflug til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar á dag í júlí síðastliðnum, en þeim fjölgaði um 20% miðað við sama mánuð í fyrra. Að sama skapi hafi erlendum flugfélögum fjölgað milli ára, en þrátt fyrir það hafa flugfélögin haldið hlutfallslegri stöðu sinni óbreyttri.
Íslensku flugfélögin Icelandair og WOW air sáu samtals um rúmlega þrjú af hverjum fjórum áætlunarflugum á Keflavíkurflugvelli, sem er óbreytt hlutfall frá því í fyrra. Innbyrðis hlutdeild félaganna breyttist þó á milli ára, en á tveimur árum hefur vægi Icelandair minnkað úr 67% niður í 50% á meðan vægi WOW air hefur aukist úr 16% upp í 25%.