Jeff Brotman, annar stofnandi bandaríska smásalans Costco og stjórnarformaður fyrirtækisins, lést snemma dags í gær. Þetta kemur fram í frétt á vef Seattle Times.
Bróðir Jeff, Michael Brotman, greindi frá andláti hans í gær, en hann lést í svefni á heimili sínu í Medina, úthverfi Seattle. Ekki var vitað um dánarorsök, en bróðir stofnandans gerði ráð fyrir að hann hafi lent í hjartastoppi. Brotman var 74 ára gamall.
Jim Sinegal, meðstofnandi Costco og samstarfsfélagi Brotman til 35 ára sagði andlát hans vera „algjört áfall fyrir alla aðstandendur.“ Sinegal segir Brotman ekki hafa einungis verið samstarfsmaður, heldur trúnaðarmaður og frábær vinur. „Ég er ekki að ýkja þegar ég segist hafa elskað manninn.“
Næststærsti smásalinn
Samstarf Sinegal og Brotman leiddi til þess að smásölufyrirtækið Costco varð að alþjóðlegu stórfyriræki, en Sinegal sá lengi um rekstur þess á meðan Brotman var á bak við opnun nýrra vöruhúsa.
Fyrirtækið er nú meðal stærstu dagvöruverslana í heimi, en samkvæmt National Retail Federation er það næststærst á eftir Wal-Mart. Samkvæmt síðasta ársreikningi fyrirtækisins námu tekjur þess árið 2016 tæplega 119 milljörðum Bandaríkjadala auk þess sem það skilaði um 2,35 milljarða dala hagnaði á tímabilinu.
Valdið hræringum á smásölumarkaði
Að sögn Sinegal varð Brotman sérfræðingur í vali á staðsetningu vöruhúsanna, en þau eru nú 736 um allan heim, þar á meðal eitt í Garðabæ.
Opnun Costco-verslunarinnar í Kauptúni hefur valdið hræringum á íslenskum dagvörumarkaði, en búist er við að hlutdeild fyrirtækisins í smásölu sé að minnsta kosti 3,6%. Sömuleiðis hefur verslunin leitt til aukinnar samkeppni í matvöruverslun, en gera má ráð fyrir að opnun hennar hafi verið aðalástæða þess að verð á matvöru hafi lækkað um 3,5% í júní.