Í Ungverjalandi voru þriðjungur allra ferða með farartækjum farnar í almenningssamgöngum og fjöldasamgöngum árið 2014. Flestar almenningssamgönguferðanna voru farnar með strætisvögnum, rútum eða sporvögnum eða um 22,6 prósent. Hlutfall lengri lestaferða var 9,9 prósent.
Þetta kemur fram í gögnum hagstofu Evrópusambandsins þar sem samgöngumáta í Evrópuríkjum hefur verið skipt upp í þrjá flokka: ferðir með einkabíl, ferðir með lestum og ferðir með almenningsvögnum.
Noregur og Portúgal reka lestina þegar kemur að hlutfalli almenningssamgangna milli landa. Aðeins 10,3 prósent allra ferða með farartækjum voru farnar með almenningssamgöngum í Noregi og Portúgal árið 2014. Lang flestar ferðir voru farnar í einkabíl, eða 89,8 prósent.
Ísland í þriðja neðsta sæti á undan Noregi og Portúgal. Hér á landi voru 88,6 prósent allra ferða með farartækjum farnar í einkabíl árið 2014. Restin af ferðunum, eða 11,4 prósent, voru farnar með strætisvögnum eða rútum enda eru hér engar lestir eða sporvagnar.
Ísland er þess vegna nokkuð langt á eftir meðaltali Evrópusambandsríkjanna 28 þegar kemur að hlutfalli almenningssamgangna. Það er 16,7 þvert á öll aðildarríki ESB og skiptist það nokkurn veginn jafnt milli lestaferða og ferða í almenningsvögnum.
Hér að neðan má sjá hlutfall ferða í hverju landi fyrir sig í öllum Evrópulöndum. Þar með talin eru Ísland, Noregur, Sviss og Makedónía, sem ekki eiga aðild að ESB. Samgöngur í Liechtenstein, sem á heldur ekki aðild að ESB, eru taldar með Austurríki enda rekur austurríska lestaþjónustan lestarkerfið í Liechtenstein.
Borgir leika lykilhlutverk
Borgar- og bæjaryfirvöld á höfuðborgarsvæðinu hafa kynnt tillögur um breytingar á svæðisskipulagi sveitarfélaganna þar sem taka á frá rými fyrir öflugri og skilvirkari almenningssamgöngur. Verkefnið gengur undir heitinu Borgarlína. Borgarlínunni er ætlað að verða þungamiðja samgangna á höfuðborgarsvæðinu á næstu áratugum.
Í aðgerðaáætlun Evrópusambandsins í loftslagsmálum eru samgöngur sá geiri sem talið er að hægt sé að minnka hvað mest og hvað hraðast. Útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna í ESB er tæplega fjórðungur alls útstreymis frá álfunni. Bílaumferð ber langmesta ábyrgð útstreymi í þessum flokki, eða ríflega 70 prósent.
Þessar tölur eru sambærilegar við Ísland þar sem um fimmtungur útblástursins verður til við samgöngur og nær allt útstreymið verður til í vegasamgöngum.
Meðal tillagna ESB er að hámarka nýtni stafrænnar tækni til þess að draga úr mengun í samgöngum, auk þess að hraða þróun vistvænna orkugjafa í samgöngum. Markmiðið verði að útblástur frá farartækjum verði enginn.
„Borgir og sveitarfélög munu leika mikilvægt hlutverk í framkvæmd þessarar áætlunar,“ segir jafnframt í áætlun ESB. „Þar er nú þegar verið að innleiða hvata fyrir notkun vistvænnar orku og vistvænna farartækja, stuðlað að hjólreiðum og göngu auk almenningssamgangna til þess að minnka mengun og umferðastíflur.