Stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna mótmælir harðlega ummælum Sveinbjargar Birnu oddvita Framsóknar og flugvallarvina er tengjast menntun barna hælisleitenda hér á landi. Í yfirlýsingu frá því er vísað í ályktanir flokksþings Framsóknarflokksins þar sem segir: ,,Framsóknarflokkurinn styður mannréttindi, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Hafna á hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólk", einnig segir: ,,Fjölbreyttur bakgrunnur fólks leiðir til betri og samkeppnishæfari vinnumarkaðar og ólík færni fólks ýtir undir framþróun atvinnulífs og skilar þannig árangri fyrir samfélagið allt".
Í tilkynningunni segir enn fremur að ungt Framsóknarfólk styðji móttöku hælisleitenda á Íslandi. „Mikilvægt er að sýna ábyrgð í alþjóðasamfélaginu og bjóða þá sem búa við stríðsástand eða kúgun velkomna. Einnig þarf að flýta málsmeðferð hjá hælisleitendum. Samstíga því viljum við styðja betur við aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi. Aldrei má mismuna börnum undir neinum kringumstæðum.“Sveinbjörg Birna sagði í upphafi viku í útvarpsviðtali að það felist „sokkinn kostnaður“ í því fyrir Reykjavíkurborg að taka við börnum hælisleitenda í grunnskóla borgarinnar. Hún sagði að þeirri hugmynd hafi skotið upp hvort eðlilegt sé að börn hælisleitenda verði sett í sérstakan skóla þar til að ákvörðun liggi fyrir um hvort fjölskyldur þeirra fái dvalarleyfi eða ekki. Þetta kom fram í viðtali við Sveinbjörgu Birnu á Útvarpi Sögu.
Í viðtalinu sagði hún að stjórnmálamenn þyrftu að hugsa sinn gang verulega ef það væri þannig að þöggun ætti að ríkja um óþægilega hluti. Hún ræddi síðan málefni innflytjenda á Íslandi og meintan kostnað sem þeim fylgir. Sveinbjörg Birna nefndi engar tölur í þeim efnum en sagði að það fylgdi t.d. mikill kostnaður því fyrir grunnskóla Reykjavíkur að taka við börnum sem væru að sækja eftir hæli hérlendis. Þessi börn stoppi stutt við og hætti í skólanum ef að fjölskyldum þeirra sé vísað úr landi eftir ákveðinn tíma. „Þá er þetta að einhverju leyti sokkinn kostnaður hjá Reykjavíkurborg.“
Hún sagði að með þessu ætti hún ekki við að það væri eftirsjá eftir því að kenna börnum hælisleitenda að lesa og skrifa. En þegar þau séu sett í bekki í skólum án aðgreiningar verði mjög mikill fókus á þessa nemendur. Það bitni á öðrum nemendur. „Þess vegna hefur þeirri hugmynd alveg skotið upp hvort að það sé eðlilegt að það sé bara sér skóli, stofnun, sem taki við þessum börnum sem eru að koma með foreldrum í leit að alþjóðlegri vernd og síðan þegar viðkomandi fjölskylda er þá komin með dvalarleyfi á Íslandi, að þá fari þeir inn í skólana.“