Um sjötti hver eldsneytislítri sem seldur er á höfuðborgarsvæðinu sé seldur hjá heildsölufyrirtækinu Costco, sem opnaði verslun og eldsneytisstöð í Garðabæ í maí. Frá því er greint í Morgunblaðinu að hlutdeild Costco á eldsneytismarkaði á svæðinu sé 15 prósent. Þar segir einnig að spenna verði í kringum uppgjör olíufélaganna N1 og Skeljungs í haust. Þá kæmi skýrar í ljós hver hlutdeild Costco væri.
Costco er einungis með tólf dælur á eldsneytisstöð sinni í Garðabæ en hefur þegar fengið samþykkta beiðni um að fjölga þeim í 16. Einungis meðlimir Costco geta keypt eldsneyti á stöðvum fyrirtækisins.
Innkoma Costco á eldsneytismarkað hefur snarlækkað eldsneytisverð, enda býður fyrirtækið viðskiptavinum sínum upp á lægra verð en hefðbundnu íslensku olíufélögin.
Samkvæmt Bensínvakt Kjarnans hefur meðal viðmiðunarverð á bensínlítra farið úr 195,9 krónur í 184,7 krónur á tveimur mánuðum, þ.e. milli maí og júlímánaða.