Hagar sendur á föstudagskvöld frá sér afkomuviðvörun í kjölfar þess að bráðabirgðauppgjör fyrir júlímánuð lá fyrir. Uppgjörið sýnir að sölusamdráttur í magni og krónum átti sér áfram stað í júlí líkt og í júnímánuði. Í tilkynningu til Kauphallar segir að ljóst sé „að breytt staða á markaði hefur mikil áhrif á félagið.“ Gera má ráð fyrir að EBITDA Haga, sem er skráð félag á markaði, verði um 20 prósent lægri fyrir tímabilið mars til ágúst 2017 en á sama tímabili í fyrra.
Þó það sé ekki sagt berum orðum í tilkynningunni er þar átt við innkomu Costco á íslenskan markað. Alþjóðlega keðjan opnaði verslun í Garðabæ í maí og hefur þegar náð umtalsverðri markaðshlutdeild bæði í sölu á dagvöru og í sölu á eldsneyti, þar sem Costco selur um sjötta hvern eldsneytislítra sem seldur er á höfuðborgarsvæðinu. Í afkomuviðvörun Haga segir að félagið vinni „áfram að hagræðingu og að bæta verslanir félagsins og þjónustu við viðskiptavini,með það að markmiði að takast á við breytt samkeppnisumhverfi. Auk þess er lögð áhersla á að nýta þau tækifæri sem sérstaða verslana félagsins gefur til sóknar.“
Markaðsverð Haga hefur einnig hríðfallið síðan að Costco opnaði. Alls hefur markaðsvirði Haga lækkað úr 64,6 milljarði króna daginn áður en að Costco opnaði, í 46,1 milljarða króna, eða um 18,5 milljarða króna.
Þetta er í annað sinn sem Hagar senda frá sér afkomuviðvörun á tveimur mánuðum. Sú fyrri var send út í byrjun júlí og var vegna þess að uppgjör fyrir júnímánuð sýndi umtalsverðan samdrátt milli ára.
Helstu eigendur Haga eru íslenskir lífeyrissjóðir. Félagið varð fyrir áfalli í síðasta mánuði þegar Samkeppniseftirlitið hafnaði samruna þess við Lyfju. Hagar tilkynntu um það í lok apríl 2017 að félagið ætlaði að kaupa Olís á 9,1 milljarða króna. Þau kaup bíða einnig samþykkis Samkeppniseftirlitsins.