Bill De Blasio, borgarstjóri New York-borgar, ætlar að leggja fram tillögu sem felur í sér að hækka skatta á ríkustu íbúa borgarinnar til að borga fyrir endurbætur á almenningssamgöngukerfi hennar. Auk þess eiga viðbótartekjurnar að greiða fyrir því að fátækari borgarbúum bjóðist betri kjör á almenningssamgöngum. Þetta var tilkynnt í gær. The New York Times greinir frá.
Íbúar New York borgar greiða sérstakan tekjuskatt til borgaryfirvalda til viðbótar við þá skatta sem þeir greiða til alríkisins og ríkisins. Sá skattur er þrepaskiptur og því hærri sem laun viðkomandi eru, því meira greiðir hann í skatta. Í frétt blaðsins segir að De Blasio muni kynna nýja skattinn, sem í felst hækkun á hæsta tekjuskattsþrepi borgarinnar úr 3,9 prósent í 4,4 prósent, í dag mánudag. Hinn svokallaði milljónamæringaskattur á að skila á bilinu 700 til 800 milljónum dala – 73 til 84 milljörðum íslenskra króna – á ári í viðbótartekjur fyrir borgina. Skatturinn á að greiðast af öllum einstaklingum með meira en 500 þúsund dali í árstekjur (rúmlega 52 milljónir króna) og af hjónum með yfir eina milljón dali í árstekjur (rúmlega 104 milljónir króna). Embættismenn New York-borgar áætla að um 32 þúsund íbúar borgarinnar muni þurfa að greiða viðbótarskattinn, eða tæplega eitt prósent þeirra einstaklinga sem greiða skatta í borginni.
Peninganna á að mestu að nota í að laga neðanjarðarlestarkerfið í New York, sem er eitt elsta almenningssamgöngukerfi í heimi. Það er líka eitt það mest notaðasta. Kerfið er farið að láta verulega á sjá og nauðsynlegt er að fjárfesta umtalsvert í viðhaldi og endurbótum á því, sem er afar kostnaðarsamt. Á undanförnum árum hafa rekstraraðilar þess, opinber stofnun sem leigir kerfið af New York-borg, þurft að hækka miðaverð umtalsvert til að standa straum af kostnaði vegna þessa. Auk þess stendur til að bæta strætisvagnakerfi borgarinnar.
En peningarnir sem milljónamæringaskattur De Blasio á að skaffa munu ekki einungis renna beint í slíkar betrumbætur. Um 250 milljónir dala (um 26 milljarðar króna) eiga að fara í að niðurgreiða almenningssamgöngukort fyrir láglaunafólk sem býr í borginni. Þeir sem áætlunin nær yfir munu fá kortin á hálfvirði. Miðað er við þá íbúa sem eru við eða undir skilgreindum fátæktarmörkum, en það eru fjölskyldur sem eru með 24,5 þúsund dali, rúmlega 2,5 milljónir króna, í árstekjur eða minna. Talið er að um 800 þúsund íbúar New York-borgar muni geta fengið niðurgreidd lestarkort samkvæmt áætluninni. Samkvæmt tölfræði sem borgin tekur saman eru konur líklegri til þess að búa við fátækt í henni en karlar og hlutfall fátækra er mun hærra hjá svörtum, spænskumælandi og íbúum af asískum uppruna en hvítum íbúum New York.
De Blasio, sem sækist eftir endurkjöri sem borgarstjóri í kosningum sem fara fram í nóvember næstkomandi, segir í yfirlýsingu að það þurfi að færa almenningssamgöngukerfi borgarinnar inn í 21. öldina. „Frekar en að senda reikninginn til vinnandi fjölskyldna og notenda lesta og strætisvagna sem þegar finna fyrir hærri fargjöldum og verri þjónustu, þá erum við að biðja ríkasta fólkið í borginni til að leggja aðeins meira til og hjálpa okkur að færa almenningssamgöngukerfið okkar inn í 21. öldina.“