Sósalistaflokkur Gunnars Smára Egilssonar mældist með 0,29 prósenta fylgi í síðasta þjóðarpúlsi Gallup, samkvæmt upplýsingum sem Kjarninn fékk hjá fyrirtækinu.
Alls tóku 2.024 viðmælendur þátt í þjóðarpúlsinum, en af þeim sögðust fjórir einstaklingar myndu kjósa flokkinn. Samkvæmt Gallup samsvarar það 0,29%, en vikmörk eru +/- 0,26% og telst því varla marktækt. Fylgi flokksins var ekki nægt til að greint hafði verið frá því sérstaklega í þjóðarpúlsinum, en hann er undir liðnum „aðrir flokkar,“ ásamt Alþýðufylkingunni, Íslensku þjóðfylkingunni og Dögun. Samtals mældust umræddir flokkar með 1,4% fylgi.
Kjarninn hefur áður fjallað um Sósíalistaflokk Íslands, en hann var stofnaður þann 1. maí af Gunnari Smára Egilssyni, fyrrverandi útgefanda og ritstjóra Fréttatímans. Fréttir um nýja stjórnmálaflokkinn komu stuttu eftir að heyrst hafði um rekstrarerfiðleika Fréttatímans, en illa gekk að greiða starfsmönnum blaðsins laun á réttum tíma.
Þrátt fyrir að fylgi hafi mælst tiltölulega lítið hjá Gallup virðast skráningar í flokkinn ganga nokkuð vel, en samkvæmt Viðari Þorsteinssyni, ritari stjórnar flokksins, eru skráðir flokksmeðlimir orðnir rúmlega 1.400.
Samkvæmt könnun Gallup myndi annar flokkur sem raðar sér vinstra megin í hinu pólitíska litrófi, Flokkur fólksins, fá 8,4 prósent atkvæða og fimm menn kjörna á Alþingi ef kosið yrði í dag. Sitjandi ríkisstjórn nýtur hins vegar einungis trausts 32,7 prósent kjósenda og flokkarnir sem að henni standa myndu ná 21 þingmanni inn á Alþingi miðað við fylgi þeirra í dag, eða ellefu færri en í kosningunum í fyrrahaust. Ríkisstjórnin er því kolfallin miðað við stöðuna eins og hún mælist nú um stundir.
Samkvæmt könnuninni er Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkur landsins. 26,5 prósent segja að þeir myndu kjósa hann sem myndi þýða að flokkurinn fengi 18 þingmenn. Það er þremur færri þingmenn en flokkurinn er með í dag. 21,2 prósent segja að þeir myndu kjósa Vinstri græna sem myndi tryggja flokknum 14 þingmenn, eða fjórum fleiri en hann fékk í síðustu kosningum. Píratar myndu fá 12,9 prósent atkvæða (níu þingmenn), Framsóknarflokkurinn 11,4 prósent (átta þingmenn) og Samfylkingin 9,1 prósent (sex þingmenn). Samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, Viðreisn og Björt framtíð, halda áfram að mælast með mjög lítið fylgi. Viðreisn myndi fá 5,3 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag og rétt skríða inn á þing með þrjá þingmenn. Flokkurinn er með sjö þingmenn í dag. Staðan hjá Bjartri framtíð er enn verri. Einungis 3,7 prósent aðspurðra í könnun Gallup sögðust ætla að kjósa flokkinn. Það myndi þýða að Björt framtíð næði ekki inn manni á þing en flokkurinn hefur nú fjóra þingmenn.