Hlutfall veðtöku í skráðum hlutabréfum í gegnum reikning í kerfi Kauphallar Íslands var 11,41 prósent í lok júlí síðastliðins. Það er umtalsvert hærra hlutfall veðsetningar en var mánuði áður, þegar hlutfallið var 9,97 prósent. Hlutfallið nú er einnig hærra en það hefur verið í lok árs 2014, 2015, og 2016. Þetta kemur fram í markaðstilkynningu frá Kauphöll Íslands í morgun.
Upplýsingar um meðalveðsetningu hlutabréfa á mörkuðum Kauphallar Íslands gefa vísbendingar um hversu umfangsmikil skuldsetning fjárfesta á hlutabréfamarkaði er. Gögnin sýna einungis beina þar sem veð í hlutabréfi hefur verið skráð í reikning í kerfi Kauphallarinnar. Þau taka því hvorki tillit til þess að lánveitandi geti haft veð í öllum eigum lántakanda, þar á meðal hlutabréfum, né innihalda þau upplýsingar um óbeinar veðtökur með gerð framvirkra samninga eða annarra afleiðna. Gögnin veita heldur ekki neinar upplýsingar um veðþekju.
Kauphöllin ákvað að birta upplýsingar um heildarveðsetningu á íslenska hlutabréfamarkaðnum í síðasta mánuði. Í tilkynningu frá henni vegna þessa kom fram að upplýsingarnar gætu veitt „ákveðnar vísbendingar um umfang skuldsetningar á hlutabréfamarkaði, þ.e. hversu mikið fjárfestar hafa fengið að láni til að kaupa í skráðum félögum. Hækkandi skuldsetning getur verið til marks um aukna bjartsýni á meðal fjárfesta og kann hófleg skuldsetning því að vera túlkuð sem jákvæður fyrirboði. Of mikil skuldsetning getur aftur á móti verið litin neikvæðum augum af margvíslegum ástæðum. Til að mynda hafa margir talið að aukin skuldsetning geti orsakað hækkun eignaverðs umfram raunvirði til skemmri tíma litið (bólumyndun á markaði). Að sama skapi getur mikil skuldsetning gert það að verkum að áhrif neikvæðra atburða á hlutabréfaverð verði harkalegri en ella.“