Fjárfestirinn George Soros og stofnandi eBay, Pierre Omidyar, hafa látið þróa sjálfvirkt forrit sem sannreynir staðhæfingar í enskum fjölmiðlum. Prufuútgáfa forritsins verður gefin út í október, en forritið er hluti af alheimsátaki gegn falsfréttum. Þetta kemur fram á vef Guardian í gær.
Í fréttinni segir að forritið sé í þróun hjá ensku Full Fact- samtökunum í samstarfi við hagstofu Bretlands, en Soros og Omidyar hafa styrkt verkefnið með fjárframlögum að andvirði um 500.000 Bandaríkjadala. Útgáfan sem gefin verður út í haust hefur fengið nafnið „Kjaftæðisleitir“ (Bullshit Detector) og byggir á þúsundum handvirkra staðreyndakönnunum, en seinni útgáfur munu nálgast opinberar tölur með sjálfvirkum hætti.
Forritið vinnur úr ræðum enskra stjórnmálamanna með því að samrýma þær við gagnagrunn sem inniheldur fréttir, útsendingar frá þinginu og pistla sem birtir hafa verið í fréttamiðlum. Einnig er unnið að því að bjóða notendum Twitter og Facebook upp á staðreyndarvakt á fréttaflæði þeirra, en samkvæmt Guardian kemur meirihluti falsfrétta þaðan.
„Þetta er svipað og að byggja upp ónæmiskerfi,“ sagði Mevan Babakar, verkefnisstjóri hjá Full Fact, og vildi meina að heiminn vantaði tól til þess að verjast auknu magni rangra upplýsinga.
Þróun hugbúnaðarins hjá Full Fact er hugsuð sem alþjóðlegt svar gegn falsfréttum (fake news), en ensku samtökin eru í samstarfi við staðreyndavaktirnar Chequeado frá Argentínu og Africa Check, sem starfar meðal annars í Nígeríu og Suður-Afríku.