Fasteignafélagið Reginn hefur átt í viðræðum við eigendur dönsku húsgagna- og búsáhaldarverslunarinnar Illums Bolighus um að opna verslun á Hafnartorgi í miðborg Reykjavíkur. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, vill ekki staðfesta það við blaðið að viðræðurnar standi yfir en fullyrt er í frétt þess að samkomulag þess efnis sé enn ekki komið í höfn. Helgi segir hins vegar að rætt hafi verið við alls kyns aðila í Skandinavíu um að opna verslanir á Hafnartorgi. Verslunar- og veitingarrýmið á Hafnartorgi í eigu Regins á Hafnartorgi er alls um 8.600 fermetrar, en húsnæðið er nú í byggingu. Það á að vera tilbúið um mitt ár 2018. ÞEgar hefur verið greint frá því að H&M muni opna verslun þar. Þegar að þeirri opnun kemur verður H&M þegar búið að opna tvær aðrar verslanir hérlendis, í Smáralind og Kringlunni.
Illums Bolighus er ekki sama fyrirtæki og Illum, sem rekur stórverslun á Strikinu og var um tíma í eigu Baugs Group og annarra íslenskra fjárfesta. Flaggskipsverslun Illums Bolighus er þó rekin í næsta húsi við Illum, en hún er um tíu þúsund fermetrar að stærð.