Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, og Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála hjá félaginu, hafa í dag keypt hlutabréf í því fyrir tæplega 18 milljónir króna. Björgólfur keypti bréf fyrir 7,2 milljónir króna og á nú 1,9 milljónir hluta í félaginu. Markaðsvirði þeirra hluta er nú um 27,2 milljónir króna. Bogi keypti hluti fyrir samtals um 10,6 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningum sem Icelandair Group sendi Kauphöll Íslands í dag um viðskipti fruminnherja.
Hlutabréf Icelandair Group hafa verið mikið til umfjöllunar á þessu ári, en virði þeirra hefur hrunið undanfarna mánuði. Mesta lækkunin varð eftir að félagið sendi frá sér kolsvarta afkomuviðvörun í febrúar sem kom markaðnum mikið á óvart. Alls hefur verð á hlut farið úr því að vera 38,9 krónur í apríl 2016 í 14,4 krónur í dag. Markaðsvirði félagsins hefur því dregist saman um helming. Það er nú um 69 milljarðar króna.