Noregur gæti rafvætt allt samfélagið sitt á næstu þrjátíu árum, fyrst allra landa, samkvæmt nýrri skýrslu Norsku orkuveitunnar. Fréttastofan NRK greindi fyrst frá.
Í skýrslu sem Norska orkuveitan (Energi Norge) afhenti umhverfisráðherra landsins í dag segir að tvær af stærstu áskorunum sem landið standi frammi fyrir séu loftslagsbreytingar og færri störf í olíugeiranum. Að sögn Oluf Ulseth, framkvæmdastjóra Norsku orkuveitunnar, er aukin áhersla á endurnýjanlega orkugjafa lausn við báðum vandamálunum.
„Okkar markmið er að Noregur, með áherslu á vatnsaflsvirkjun og betra samráðs milli atvinnulífs og stjórnvalda, muni verða heimsins fyrsta rafvædda samfélag innan ársins 2050. Á þann hátt getum við styrkt leiðtogahlutverk okkar í loftslagsmálum og samkeppnishæfni á sama tíma,“ segir Ulseth.
Samkvæmt frétt NRK kemur 96% allrar raforkuframleiðslu frá vatnsaflsvirkjunum í Noregi. Þar að auki er stór hluti húshitunar rafvæddur og hlutfall rafbíla af bílaflota landsins það hæsta í heimi. Ulseth segir góða stöðu Noregs gefa orkuveitunni einstakan grunn til þess að rafvæða aðra þætti samfélagsins og skrúfa þannig fyrir útblástur jarðefnaeldsneytis.
110.000 rafbílar eru skráðir í Noregi núna, en norska þingið hefur samþykkt frumvarp þess efnis að einkabílar knúnir áfram af sprengihreyfli muni ekki vera seldir eftir árið 2025. Samkvæmt Ulseth mun rafvæðing landsins krefjast stórra breytinga innan alls samgöngukerfisins auk olíu-og jarðgasgeirans.
Samkvæmt skýrslunni mun átakið færa Noreg í átt að sjálfbærari orkugjöfum, en landið er 15. stærsti olíuframleiðandi heims. Olíuframleiðsla landsins náði 1,64 milljón tunna á dag í fyrra, en til samanburðar var framleiðsla furstaríkisins Katar 1,52 milljón olíutunna á dag.