Heimsmarkaðsverð á áli náði 2.040 Bandaríkjadölum á tonnið í síðustu viku, en það hefur ekki verið hærra síðan í nóvember árið 2014. Þetta kemur fram í tilkynningu hagfræðideildar Landsbankans fyrr í dag, en deildin spáir einnig frekari verðhækkunum.
Verð á áli hefur verið í nokkurri lægð síðustu árin, ásamt verði á gulli, kopar, olíu og öðrum hrávörum. Hins vegar hefur nokkur viðsnúningur verið á markaðnum undanfarna mánuði, þar sem hrávöruverð hefur farið nokkuð hækkandi aftur. Verðhækkunina má útskýra aukinni eftirspurn margra landa, en efnahagshorfur eru tiltölulega góðar á alþjóðavísu þessa stundina.
Það sem af er ári hefur markaðsverð áls hækkað um 20%, en samkvæmt Landsbankanum er það mesta hækkun allra helstu hrávara á þessu tímabili.
Verðhækkun áls var sérstaklega snörp í síðustu viku, en á fimm dögum hækkaði virði málmsins um 8%. Að mati hagfræðideildar Landsbankans er verðhækkunin tilkomin vegna umhverfisátaks Kínverskra stjórnvalda, en þau hafi látið loka fjölda ólöglegra framleiðslueininga þar í landi til þess að draga úr mengandi álframleiðslu.
Meirihluti álframleiðslu fer fram í Kína, eða um 60%. Samkvæmt tilkynningunni eru enn frekari verksmiðjulokanir boðaðar, en þær ættu að hafa teljandi áhrif á framboð á heimsvísu svo búast mætti við frekari verðhækkana á áli á næstunni. Einnig virðist eftirspurn vera að taka við sér á ný.