Eini pappírsframleiðandi Íslands, Papco, hefur sagt upp sex manns, eða heilli vakt, vegna samdráttar sem orðið hefur í sölu, sérstaklega á klósettpappír. Samdrátturinn bein afleiðing af opnun verslunar Costco í Kauptúni í Garðabæ í maí, en síðan þá nemur samdráttur í sölu á vörum Papco 20-30 prósent. Papco er eini framleiðandi klósettpappírs hérlendis. Sú framleiðsla er seld bæði undir vörumerki Papco en einnig undir vörumerkjum stærstu smásala landsins, t.d. Krónunnar og Bónus. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Þar er rætt við Alexander Kárason, sölustjóra neytendasviðs Papco. Hann segir Papco hafa reynt að komast í samstarf við Costco en beiðnum þess efnis hafi ekki verið svarað. Samkvæmt athugunum fyrirtækisins sé Costco að selja sinn eigin klósettpappír, sem framleiddur er undir merkjum Kirkland, á lægra verði hérlendis en fyrirtækið selur hann í Bretlandi. „Verðið sem fyrirtækið býður hér á landi er undir kostnaðarverði. Það er heimsmarkaðsverð á pappír, og því er auðvelt að sjá hvernig í þessu liggur. Ef við ætluðum að keppa við þetta verð eða framleiða pappír fyrir þá á þessu verði værum við að borga með vörunum.“
Hann segir að ódýr klósettpappír sé oft notaður til að „lokka fólk inn í verslanir“. Það gæti verið á ferðinni í tilfelli Costco sem selji vöruna undir markaðsvirði. Þessi staða komi hart niður á unglinga- og barnastarfi íþróttafélaga sem selji klósettpappír í fjáröflunarskyni.
Málið er einnig til umfjöllunar í Fréttablaðinu. Þar er rætt við Richard Kristinsson, framkvæmdastjóraMjallar Friggjar, sem framleiðir uppþvottalög, þvottaefni og aðrar hreinlætisvörur. Hann segist ekki óttast að koma Costco hafi langvarandi áhrif á rekstur fyrirtækisins. Það sé lítið á neytendamarkaði.
Áhrif opnunar Costco á Íslandi hafa verið gríðarleg. Stærsti smásali landsins, Hagar, hefur tvívegis sent frá sér afkomuviðvörun frá því að Costco opnaði og hlutabréfaverð í félaginu hefur hrunið, og lækkað alls um 36 prósent. Í gær lækkaði það aftur skarpt, um 4,2 prósent, og hefur nú ekki verið lægra í fjögur ár. Sú lækkun var, samkvæmt Fréttablaðinu, rakin til fréttaflutnings um að þýska verslunarkeðjan Aldi hafi áhuga á að opna verslun hérlendis.
Þá selur Costco sjötta hvern bensínlítra sem seldur er á höfuðborgarsvæðinu, en fyrirtækið býður umtalsvert lægra verð en skráð verð samkeppnisaðila þess eru. Skráðu olíufélögin, N1 og Skeljungur, birta hálfsársuppgjör sín á næstu vikum og mun þá koma í ljós hver skammtímaáhrif opnunar Costco voru á rekstur félaganna.