Ragnhildur Geirsdóttir hefur verið ráðin sem aðstoðarforstjóri WOW air. Sem aðstoðarforstjóri mun megin verkefni hennar felast í að hafa umsjón með daglegum rekstri félagsins. Í tilkynningu frá WOW air segir að með tilkomu Ragnhildar muni Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri félagsins, einbeita sér meir að langtíma stefnumótun og uppbyggingu WOW air erlendis sem og innleiðingu á tækninýjungum sem hafa ekki áður þekkst í flugheiminum.
Ranghildur hefur áður starfað í fluggeiranum, en hún var forstjóri FL Group fyrir rúmum áratug síðan. Hún sagði upp því starfi haustið 2005 og steig fram árið 2010 til að tjá sig opinberlega um ástæður þess. Þá sagðist hún telja að FL Group hefði að öllum líkindum greitt þrjá af þeim fjórum milljörðum króna sem greiddir voru fyrir danska flugfélagið Sterling í mars 2005. Féð hefði verið lagt inn á reikning hjá Kaupþingi í Lúxemborg að frumkvæði Hannesar Smárasonar en síðan horfið þaðan án tilhlýðilegra skýringa. Milljarðarnir þrír sem FL Group lagði inn á reikninginn í Lúxemborg skiluðu sér loks þangað aftur í júlí 2005. Þá hafði Ragnhildur og nokkrir stjórnarmenn í FL Group hótað Hannesi því að málið yrði sent til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra til rannsóknar sem fjárdráttur ef féð myndi ekki skila sér.
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um Sterling-málið í gegnum tíðina.
Ragnhildur starfaði síðast sem framkvæmdastjóri Rekstrar og upplýsingatækni hjá Landsbankanum og gengdi því starfi í fimm ár. Hún sagði upp störfum í maí og hætti skömmu síðar.
Þar áður var hún forsjóri Promens. Ragnhildur er verkfræðingur og viðskiptafræðingur að mennt. Hún lauk CS prófi í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 1995, MS prófi í iðnaðarverkfræði frá Háskólann í Wisconsin árið 1996 og MS prófi í viðskiptafræði frá sama skóla 1998.