Dómsmálaráðuneytið hefur birt forauglýsingu á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) um samning um aðstoð og þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í auglýsingunni er áhugasömum aðilum boðið að láta áhuga sinn í ljós til 1. september næstkomandi. Samkvæmt henni er virði samningsins metið 830 milljónir króna án virðisaukaskatts. Auglýsingin var birt 1. ágúst þrátt fyrir að dómsmálaráðuneytið hafi ekki greint frá tilurð hennar í frétt á heimasíðu sinni fyrr en í gær.
Í auglýsingunni kemur fram að samningurinn sem sé í boði, náist saman við áhugasama, sé til 36 mánaða með möguleika á tólf mánaða framlengingu í tvígang.
Í frétt á vef ráðuneytisins segir að markmið samningsins sé að „tryggja öllum umsækjendum um alþjóðlega vernd félagslegan stuðning, upplýsingagjöf og sjálfstæða og óháða hagsmunagæslu. Tilgangurinn er að jafnræðis sé gætt, umsækjendur fái vandaða málsmeðferð, viðeigandi þjónustu og eigi greiðan aðgang að stuðningi og upplýsingum.“ Í auglýsingunni kemur einnig frá hvers konar þjónusta skuli veitt í þessu sambandi, til dæmis varðandi félagslega aðstoð og réttargæslu.
Samkvæmt tölum sem birtar eru á vef Útlendingastofnunar sóttu 1.132 um vernd hérlendis á árinu 2016. Af þeim var alls 111 manns veitt vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi til að dvelja á Íslandi. Öðrum var annað hvort synjað, þeir endursendir, veitt vernd í öðru ríki eða drógu til baka umsóknir sínar.
Á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 sóttu alls 500 manns um vernd. Á árinu hafa 61 fengið vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi. Í desember 2016 voru 820 umsækjendur hérlendis annað hvort þjónustaðir af sveitarfélögum eða Útlendingastofnun.
Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar, sagði í útvarpsþætti á Útvarpi Sögu í síðustu viku að horfur séu á því að kostnaður vegna móttöku hælisleitenda hérlendis fari rúmlega þrjá milljarða króna fram úr fjárlögum á þessu ári. Í fjárlögum fyrir 2017 samþykkti Alþingi 2,5 milljarða króna í málaflokkinn.